Skopteikningum mótmælt friðsamlega í Hong Kong

Reuters

Um eitt þúsund múslimar tóku þátt í friðsamlegri mótmælendagöngu í almenningsgarði í miðborg Hong Kong í morgun. Voru þeir að mótmæla birtingu skopmynda af Múhameð spámanni í vestrænum fjölmiðlum. Báru mótmælendur spjöld sem meðal annars stóð á: Ekki misnota málfrelsið og móðganir við spámanninn særa múslima.

Í viðtali við AP fréttastofuna sagðist einn göngumanna ekki geta lýst því hversu sár hann er yfir birtingu skopmyndanna. Þær séu móðgandi við alla múslimi.

Í göngunni krupu mótmælendur á kné og báðu. Leiðtogar múslima fluttu erindi á fjórum tungumálum þar sem birtingu skopmyndanna var mótmælt.

Í Hong Kong búa um 70 þúsund múslimar, meðal annars frá Kína, Pakistan, Indlandi og Sri Lanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert