Múslimar vilja skopmyndamálið fyrir mannréttindadómstól

Reuters

Samtök danskra múslima ætlar að fara með skopmyndamálið fyrir alþjóðlegan mannréttindadómstól. Stefna samtökin danska ríkinu fyrir að hafa ekki ákært Jyllandposten fyrir að birta skopmyndir af Múhameð spámanni í september. Ríkissaksóknari Danmerkur ákvað fyrr í vikunni að ekki yrði lögð fram ákæra á hendur Jyllandsposten fyrir að birta umdeildar teikningar af Múhameð spámanni.

Múslimahóparnir 27 sem mynda samtök danskra múslima ætla að leggja fram beiðni til mannréttindadómstóls um að skilgreint verði hvar línan liggi milli málfrelsis og trúfrelsis, að því er fram kom í danska útvarpinu. Ekki liggur fyrir hvort beiðnin verði send til Mannréttindadómstóls Evrópu eða einhvers annars mannréttindadómstóls.

Henning Fode, ríkissaksóknari Danmerkur, sagði í yfirlýsingu á miðvikudag að myndbirtingin af Múhameð spámanni væri ekki brot á lögum sem banna mönnum að boða rasisma eða guðlasta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert