Yfir 50 þúsund manns í útför manns sem lést í haldi lögreglu

Reuters

Yfir fimmtíu þúsund manns tóku þátt í útför Amer Cheema, 28 ára gamals Pakistana, sem lést í haldi þýsku lögreglunnar. Var Cheema í haldi lögreglu þar sem talið var að hann ætlaði sér að ráðast á dagblað sem birti skopteikningar af Múhameð spámanni. Var Cheema stöðvaður af lögreglu þegar hann reyndi að komast inn á skrifstofur útgefanda Die Welt í Berlín, Axel Springer, vopnaður hnífi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Berlín hengdi Cheema sig í klefa sínum þann 3. maí.

Komið var með lík Cheema til bæjarins Saroki í Pakistan í dag þar sem útför hans. Fór útförin friðsamlega fram að sögn bæjarstjórans í Saroki.

Að minnsta kosti fimm mann létust í Pakistan fyrr á árinu er múslimar mótmæltu birtingu skopteikninga af Múhameð spámanni. Voru teikningarnar fyrst birtar í Jótlandspóstinum og ollu þær mikilli reiði meðal múslima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert