Málshöfðun gegn ritstjóra vegna skopmynda af Múhameð spámanni

Myndbirtingin olli mikilli reiði meðal múslima
Myndbirtingin olli mikilli reiði meðal múslima Reuters

Saksóknari í Indónesíu hefur ákveðið að höfða opinbert mál gegn ritstjóra vefmiðils fyrir að birta skopmyndir af Múhameð spámanni. Ritstjóri Rakyat Merdeka, Teguh Santosa, var ákærður í síðasta mánuði fyrir hvetja til andúðar gegn islam og fyrir ærumeiðandi ummæli með myndbirtingunni. Á ritstjórinn yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi verði hann fundinn sekur.

Hafnaði saksóknaraembættið í suðurhluta Jakarta kröfu varnaraðila um að lögin ættu ekki við um fjölmiðla og að frekar ætti að rétta yfir ritstjóranum samkvæmt fjölmiðlalögum Indónesíu.

Danska blaðið Jyllands Posten birti fyrst skopmyndirnar af Múhamed spámanni fyrir ári síðan og olli birtingin mikilli úlfúð meðal múslima víða um heim.

Santosa segir að tilgangurinn með birtingunni hafi alls ekki verið sá að lítilsvirða íslam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert