Danski Þjóðarflokkurinn birtir niðrandi mynd af Múhameð á heimasíðu sinni

Íranskir lögreglumenn standa vörð um danska sendiráðið í Teheran en …
Íranskir lögreglumenn standa vörð um danska sendiráðið í Teheran en heimatilbúnum smásprengjum var varpað á sendiráðið á þriðjudag. AP

Danski Þjóðarflokkurinn hefur birt mynd sem sýnir Múhameð spámann sem barnaníðing á heimasíðu sinni. Myndin birtist með bókaumfjöllun í blaði flokksins Dansk Folkeblad í maí en var birt á vefsíðunni í gær. Meðlimir flokksins hafa að undanförnu sætt harðri gagnrýni eftir birtingu myndbands sem sýnir ungliða úr flokknum gera grín að spámanninum.

Søren Søndergaard, fjölmiðlafulltrúi flokksins, segir hins vegar fullkomlega eðlilegt að blaðið skuli birt á vefsíðunni. „Það væri jú meira en lítið undarlegt ef við birtum ekki þetta blað. Við ákváðum að birta umfjöllun um bók um Múhameð sem hefur verið á markaði í nokkur ár í blaðinu. Með umfjölluninni er birt mynd úr bókinni,” segir hann.

Troels Lund Poulsen, talsmaður stjórnarflokksins Venstre, tekur í sama streng. „Blaðið kom út í maí þannig að Þjóðarflokkurinn er einfaldlega að nýta sér það tjáningarfrelsi sem við njótum hér í Danmörku,” segir hann. Pia Christmas-Møller, talsmaður Íhaldsflokksins, kveðst hins vegar undrast birtinguna en segir mjóa línu liggja á milli þess að nýta sér tjáningarfrelsi sitt og að ýta undir misskilning og ónauðsynlegrar ögranir sem geti leitt til valdbeitingar. „Þegar eldur logar verður fólk að gera það upp við sig hvort það vilji hella vatni eða olíu á eldinn,” segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert