Varað við fuglaflensu

AP

Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) beindi í dag þeim tilmælum til ríkja að þau væru á varðbergi þar sem fuglaflensa væri byrjuð að koma upp í Asíu. Nýverið komu upp ný tilvik fuglaflensu í Pakistan og í Búrma hefur fuglaflensa greinst í fyrsta skipti í fólki.

Fjórir bræður og tveir ættingjar þeirra veiktust í síðasta mánuði í  Abbotabad í Pakistan auk þess sem þrír menn sem komu að eyðingu alifugla á sama svæði greindust sýktir af H5N1 afbrigði fuglaflensu fyrr í þessum mánuði. Tveir bræðranna létust en einungis var tekið sýni úr öðrum þeirra. Greindist H5N1 afbrigði fuglaflensu í sýninu af heilbrigðisyfirvöldum í Pakistan en WHO hefur ekki staðfest niðurstöðuna. Læknir sem sinnti bræðrunum hefur veikst í kjölfarið en einungis er um væg flensueinkenni að ræða.

Á föstudag var staðfest að sjö ára gömul stúlka sem veiktist í síðasta mánuði hafi verið sýkt af fuglaflensu. Hún hefur náð heilsu á ný. Hins vegar  lést nýverið manneskja úr fuglaflensu í Indónesíu en alls hafa 93 látist úr H5N1 afbrigði fuglaflensu þar. Jafnframt hafa 2 tilfelli fuglaflensu í mönnum verið staðfest í Kína en annar þeirra smituðu lést.

Samkvæmt upplýsingum frá WHO kemur fuglaflensa oft upp á veturna og er tíminn fram í apríl yfirleitt sá versti, samkvæmt upplýsingum frá WHO. Á það ekki bara við um Asíu heldur einnig vesturlönd. Að minnsta kosti 208 manns hafa látist úr H5N1 afbrigði fuglaflensu frá því á síðari hluta ársins 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert