Óttast dauðsföll í Bandaríkjunum

Heilbrigðisstarfsfólk á sjúkrahúsi sjóhersins í Mexíkóborg ver sig gegn flensunni …
Heilbrigðisstarfsfólk á sjúkrahúsi sjóhersins í Mexíkóborg ver sig gegn flensunni með grímum og varnarbúningum. Reuters

Sérfræðingar víða að úr heiminum funda á morgun á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem nú reynir að hamla gegn útbreiðslu svínaflensunnar.

Í tilkynningu á heimasíðu WHO síðdegis í dag segir að fundur vísindamannanna sé haldinn til að afla nákvæmari vísindalegra upplýsinga um svínaflensuna. „Sérfræðingar frá löndum þar sem veikin hefur komið upp munu greina frá stöðunni og ræða hvað vitað er um sjúkdóminn frá veirufræðilegu, faraldsfræðilegu og læknisfræðilegu sjónarhorni,“ segir í tilkynningunni.

Flugfélög og ferðaskrifstofur hættu við flugferðir til Mexíkó í dag um leið og ótti við nýtt banvænt afbrigði inflúensu jókst víða. Í dag bættust við mörg dæmi um meint sjúkdómstilfelli víða um heim. 

Bandaríkin hafa varað við því að búast megi við dauðsföllum af völdum veikinnar. Til þessa hefur svínaflensan einungis dregið fólk í Mexíkó til dauða. Þar hafa meira en 150 manns fallið fyrir sjúkdómnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert