Margir samverkandi þættir

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, ræddi í dag við aðstandendur farþega, sem …
Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, ræddi í dag við aðstandendur farþega, sem biðu frétta á Charles de Gaulle flugvelli í París. Reuters

Afar sjaldgæft er að eldingar og ókyrrð í lofti valdi flugslysum að sögn sérfræðinga. Hins vegar geti slæmt veður valdið röð bilana sem kunni að leiða til brotlendingar. Farþegaflugvél hvarf í morgun yfir Atlantshafi með 228 manns innanborðs. Þeirra á meðal var íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri.

Talsmaður franska flugfélagsins Air France sagði í dag að Airbus A330-200 farþegavél félagsins kunni að hafa orðið fyrir eldingu. En flestir sérfræðingar segja, að eldingar eigi ekki að leiða til þess að nútíma farþegaflugvélar hrapi nema annað komi til.

„Flugvélar eru byggðar þannig að þær eiga að þola eldingar og raunar lýstur eldingum nokkuð oft niður í flugvélar," segir bandaríski atvinnuflugmaðurinn Patrick Smith.

„Ég hef orðið fyrir eldingum nokkrum sinnum og þær hafa aðeins skilið eftir ummerki á skrokk vélarinnar."

Flugvélin fór yfir þekkt óveðurssvæði nálægt miðbaug þar sem vindar frá norður- og suðurhveli jarðar mætast. Þar mætast misheitir loftstraumar og fara þá oft upp og valda ofsafengnum þrumuveðrum. Flugvélar eru hins vegar vel búnar til að fara yfir slík svæði og ratsjárkerfi þeirra gera flugmönnum kleift að forðast mestu ókyrrðina, annað hvort með því að finna glufur í veðrakerfinu eða með því að fljúga yfir það.  

Sérfræðingar segja, að vegna þess að A330 flugvélar eru gjarnan notaðar á löngum flugleiðum sé afar mikilvægt að finna flugrita vélarinnar svo upplýsingar fáist um hvað gerðist.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert