Ökuníðingur í fjögurra vikna síbrotagæslu

Karlmaður á fimmtugsaldri sem gerðist sekur um ofsaakstur á sunnudagskvöld hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu, eða til 27. maí, að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Úrskurðurinn var kveðinn upp af Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

„Maðurinn, sem hefur ítrekað komið við sögu hjá lögreglu, var handtekinn í austurborginni á sunnudagskvöld eftir að bifreið hans var veitt eftirför. Þar ók maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, um Langholtshverfið og víðar og skeytti lítt um aðra vegfarendur, en mildi þykir að enginn slasaðist,” segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Þar segir einnig að bifreið hans hafi verið ekið mjög ógætilega, m.a. yfir leyfilegum hámarkshraða, gegn rauðu ljósi, gegn einstefnu og bæði á gangstétt og göngustíg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert