Brak ekki úr vélinni

Bróðir konu sem var um borð í Air France flugvélinni …
Bróðir konu sem var um borð í Air France flugvélinni heldur á mynd af henni með Lula da Silva, forseta Brasilíu. Reuters

Yfirmaður í flugher Brasilíu segir brak sem fundist hefur á Atlantshafi ekki vera úr farþegaflugvél Air France sem talin her hafa farist þar á leið frá Brasilíu til Frakklands á mánudag. Steinolía sem þar hafi fundist sé hins vegar sennilega úr vélinni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Yfirmaðurinn Ramon Borges Cardoso segir ekkert brak úr Airbus A330 vélinni hafa fundist. Olíubrák á svæðinu sé hins vegar af þeirri gerð sem notuð sé í þotueldsneyti. 

Fyrsta herskipið kom á svæðið í gær en fram að því hafði brak á svæðinu einungis sést úr lofti. Kom þá í ljós að stærsti hluturinn var viðarplata en engar viðarplötur voru í vélinni.

Í gær sögðu Pierre-Henri Gourgeon og Jean-Cyril Spinetta, æðstu yfirmenn Air France, aðstandendum þeirra 228 sem voru um borð í vélinni að engin von væri um að neinn fyndist á lífi.  Þá sagði Gourgeon að ljóst væri að vélin hefði brotnað í sundur annað hvort í loftinu eða sjónum. 

„Það sem er ljóst er að það var engin lending," hafði Guillaume Denoix de Saint-Marc eftir honum eftir fundinn. „Það er enginn von til þess að rennibrautir hafi opnast."

Leitarskip, með fullkomnari leitartækjum, eru væntalneg á svæðið á næstu dögum en leitarsvæðið er um 1.100 km norðaustur af austurströnd  Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert