Lögregla í Danmörku hefur látið lausan 48 ára gamlan karlmann, sem handtekinn var í byrjun ársins grunaður um að hafa myrt tvítuga stúlku í Herning á Jótlandi. DNA-rannsóknir leiddu í ljós, að maðurinn var saklaus.
Stúlkan, sem hét Maria Møller Christensen, fannst á nýársdag látin í þvottaherbergi í kjallara fjölbýlishúss í borginni. Íbúi í húsinu var handtekinn daginn eftir og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Honum var sleppt í gær.
Það hefur vakið talsverða athygli í Danmörku, að Ekstra Bladet birti í gær nafn mannsins og mynd af honum á fréttavef sínum og eru nafnið og myndin einnig birt í prentaða blaðinu í dag.
Maria Møller Christensen, var að skemmta sér um áramótin með
félögum sínum á stúdentagarði í Herning. Hún hvarf þaðan um miðnætti á
nýársnótt og fór út í kuldann skólaus og illa klædd. Hún fannst síðan látin í þvottahúsinu síðdegis daginn eftir.
Lögregla sagði í dag, að talið væri að stúlkan hafi verið mjög ölvuð og hún hafi væntanlega villst á leiðinni heim. Fram kom í dag, að stúlkunni hafði verið misþyrmt kynferðislega og hún síðan kyrkt.