Vopnahlé í Sýrlandi

Frá hverfinu Juret al-Shayah í borginni Homs í Sýrlandi. Byggingar …
Frá hverfinu Juret al-Shayah í borginni Homs í Sýrlandi. Byggingar þar eru stórskemmdar eftir linnulausar árásir stjórnarhersins. Þar er nú vopnahlé. Reuters

Vopnahlé gekk í gildi í Sýrlandi  í dögun í morgun og ekki hafa borist fregnir af neinum átökum í landinu síðan þá. Leiðtogi stjórnarandstæðinga í Sýrlandi hvetur almenning til að nota tækifærið á meðan vopnahléið stendur yfir til að mótmæla stjórn Bashars al-Assads, forseta landsins. 

Skömmu áður en vopnahléið gekk í gildi í morgun skaut stjórnarherinn að búðum mótmælenda og myrti 25 óbreytta borgara.

„Við hvetjum fólk til að mótmæla og tjá skoðanir sínar vegna þess að rétturinn til að mótmæla er ein af ástæðum þess að vopnahléi var komið á,“ sagði Burhan Ghalioun, leiðtogi uppreisnarmanna við AFP-fréttastofuna í morgun.

Vopnahléið er hluti af sex liða friðaráætlun Kofis Annans, fyrrum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem sýrlensk stjórnvöld hafa samþykkt. Í henni felst meðal annars að stjórnvöld eiga að virða frelsi frjálsra félagasamtaka og réttinn til friðsamlegra mótmæla.

Átök hafa staðið yfir í landinu undanfarna 13 mánuði, en upphafið voru friðsamleg mótmæli gegn stjórnarháttum Assads.

Alþjóðasamfélagið hefur haft litla trú á því að Assad standi við vopnahléð, en hann braut gegn samkomulagi þess efnis að herir landsins myndu yfirgefa helstu þéttbýlisstaði síðasta þriðjudag. Skriðdrekar eru enn staðsettir víða í bæjum og borgum landsins, þar á meðal í bænum Zabadini, sem er skammt frá höfuðborginni Damaskus og í borginni Homs.

Mótmæli eru fyrirhuguð á morgun, að loknum föstudagsbænum og er talið að þá reyni verulega á staðfestu stjórnvalda um að standa við vopnahléið. Í bréfi sýrlenskra stjórnvalda til Kofis Annans segir að þau hyggist halda hléð, en að þau áskilji sér engu að síður að „bregðast við á viðeigandi hátt við árásum vopnaðra hryðjuverkamanna.“

Sameinuðu þjóðirnar telja að meira en 9000 manns hafi látið lífið í átökum í landinu síðan í mars í fyrra.

Þolinmæði alþjóðasamfélagsins virðist vera á þrotum, þannig lýsti William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, því yfir að Bretar myndu auka stuðning sinn við uppreisnarmenn í Sýrlandi ef Assad stæði ekki við vopnahléið og bæði Barack Obama Bandaríkjaforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafa hvatt öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að taka einarðari afstöðu varðandi málefni Sýrlands.

Kofi Annan er nú staddur í Genf og þaðan mun hann ræða við öryggisráðið í dag um næstu skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert