Obama gagnrýnir ummæli Romneys

Obama og spjallþáttastjórnandinn David Letterman spjalla saman í dag.
Obama og spjallþáttastjórnandinn David Letterman spjalla saman í dag. AFP/BRENDAN SMIALOWSKI

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag í spjallþætti Davids Letterman að andstæðingur hans í forsetakosningunum í Nóvember, Mitt Romney, væri að „afskrifa stóran hlut þjóðarinnar“ með ummælum sínum um að 47% Bandaríkjamanna væru velferðarþegar og fórnarlömb sem styddu forsetann.

Obama sagði í þættinum, sem sýndur verður í Bandaríkjunum síðar í kvöld, að eitt af því fyrsta sem hann hefði lært sem forseti væri að hann væri fulltrúi allrar þjóðarinnar. „Ef þú vilt vera forseti, þá þarftu að vinna fyrir alla,“ sagði Obama og bætti við: „Þegar ég vann árið 2008 kusu 47% bandarísku þjóðarinnar John McCain. Þau kusu mig ekki, og ég sagði við þau á kosninganótt að þó að þau hefðu ekki kosið mig, að þá heyrði ég raddir þeirra, og að ég ætlaði að leggja eins hart að mér og ég gæti til þess að vera forseti þeirra líka.“

Ummæli Romneys féllu á fjáröflunarsamkomu sem hann stóð fyrir. Upptaka með ummælunum var birt á heimasíðu Mother Jones. Sagði Romney að 47 prósent Bandaríkjamanna væru með Obama, því þeir væru háðir ríkisvaldinu, tryðu því að þeir væru fórnarlömb og að ríkisstjórninni bæri skylda til þess að hugsa um sig og að þeir hefðu tilkall til heilbrigðisþjónustu, matar, húsnæðis og hvers sem er. „Þetta fólk borgar enga skatta... þannig að skilaboð okkar um lægri skatta fara framhjá þeim,“ sagði Romney. „Starf mitt er ekki að hafa áhyggjur af þessu fólki. Ég mun aldrei ná að sannfæra það um að það ætti að bera persónulega ábyrgð á eigin lífi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert