Obama taki á byssulöggjöfinni

Um 160.000 manns hafa skrifað undir áskorun á heimasíðu Hvíta hússins þar sem Barack Obama Bandaríkjaforseti er hvattur til að setja lög sem takmarki aðgengi fólks að skotvopnum. Aldrei hafa fleiri skrifað undir slíka áskorun.

Áskorunina er að finna á heimasíðu Hvíta hússins í Washingston undir lið sem kallast „We the People“.

Núna kl. 23 í kvöld voru 159.000 búnir að skrifa undir hana, aðeins þremur dögum eftir fjöldamorðin í Newtown í Connecticut.

„Öflugir hagsmunahópar gera það að verkum að byssueign teygir sig út fyrir það markmið sem er skilgreint í stjórnarskránni um rétt manna til að bera vopn,“ segir í áskoruninni, en vísað er til hópa á borð við samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum (NRA).

Þess er krafist að þverpólitísk umræði hefjist um löggjöf sem hafi eftirlit með því hvernig almennir borgarar geti eignast skotvopn.

Bandaríkjamenn eru harmi slegnir vegna fjöldamorðs sem var framið í grunnskóla í Newtown sl. föstudag. Þar skaut maður vopnaður byssu 20 börn og sex konur.

Morðinginn er jafnframt sagður hafa myrt móður sína áður en hann framdi ódæðið í skólanum. Hann tók síðan eigið líf.

Obama heimsótti bæjarbúa í Newtown í gær. Hann hét þeim að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir að svona hryllingur myndi endurtaka sig.

Talsmaður Hvíta hússins hefur ekki gefið uppi um hvaða aðferðir Obama hafi í huga til að taka á þessum vanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert