Vilja ræða við föður Gammy

Gammy ásamt staðgöngumóðurinni Patt­aramon Chan­bua.
Gammy ásamt staðgöngumóðurinni Patt­aramon Chan­bua. AFP

Yfirvöld í Ástralíu kanna nú bakgrunn föðurins sem sagður er hafa skilið son sinn Gammy eftir hjá tælenskri staðgöngumóður í desember á síðasta ári. Þetta kemur til vegna ásakana um að hann sé dæmdur barnaníðingur.

Staðgöngumóðirin segir ástralska foreldra hafa yfirgefið annað barn á sjúkrahúsi í Tælandi, en hún ól þeim tvíbura. Annað barnið, drengurinn, er með Downs-heilkenni, og varð hann eftir á sjúkrahúsinu. Tóku foreldrarnir stúlkuna með sér og gangrýndi staðgöngumóðirin þau í samtali við fjölmiðla.

Foreldrarnir sendu þá frá sér yfirlýsingu og sögðu að hún hefði blekkt heiminn, þeim hefði verið sagt að drengurinn ætti aðeins skammt eftir ólifað, þau ættu að kveðja hann og fara heim.

Yfirvöld í Ástralíu vilja nú komast til botns í málinu og kanna hvort ásakanir um fortíð föðurins séu réttar og hvort hætta steðji að stúlkunni litlu. Þegar hefur verið reynt að ná sambandi við manninn en þar sem fjölmiðlafólk situr nú um hús foreldranna, kom enginn til dyra. Fleiri tilraunir verða gerðar til að ná sambandi við foreldranna í dag.

Maðurinn er frá Bunbury í Ástralíu en í frétt AFP-fréttaveitunnar segir að hann hafi verið fundinn sekur um sex kynferðisbrot gegn börnum.

Staðgöngumóðirin, Pattaramon Chanbua, sagði að fréttirnar um fortíð mannsins hefðu fengið mikið á sig. Hún segist vera tilbúin að taka aftur við stúlkunni, sem er nú er orðin sjö mánaða, ef í ljós kemur að ásakanirnar reynast réttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert