Fundu níu börn í íbúð

Staðgöngumóðirin Pattaramon Chanbua með Gammy litla.
Staðgöngumóðirin Pattaramon Chanbua með Gammy litla. AFP

Lögreglan í Taílandi ætlar að gera DNA-rannsókn á níu börnum sem fundust við „dularfullar“ aðstæður í íbúð í Bankok. Börnin höfðu barnfóstrur en rannsóknin er gerð til að komast að því hverjir foreldrar þeirra eru.

Málið tengist umfjöllun um staðgöngumæðrun í Taílandi, eftir að mál Gammys litla kom upp. Líffræðilegur faðir hans er Ástrali sem sagður er dæmdur kynferðisbrotamaður. Gammy er með Downs-heilkenni og áströlsku foreldrarnir vildu ekki taka við honum. Hann er því enn í umsjá staðgöngumóður sinnar. Gammy eignaðist heilbrigða tvíburasystur sem ástralska parið tók. 

Ekkert er vitað um börnin níu sem fundust í íbúðinni. Þau hafa nú verið sett í umsjá barnaverndaryfirvalda. Talið er að þau séu á aldrinum tveggja vikna til tveggja ára.

Taílenskur lögmaður sem var í íbúðinni er lögreglan kom þangað í gær, segir að auðugur Japani eigi öll börnin. 

Níu barnfóstrur voru einnig í íbúðinni og ólétt kona sem segist vera staðgöngumóðir. Barnfóstrurnar sögðu lögreglunni að þær fengju greidda 310 bandaríkjadollara á mánuði fyrir að gæta barnanna.

„Við erum að rannsaka hvers vegna þessi níu börn voru í þessu herbergi,“ segir lögreglustjórinn Aek Angsananont. „Við verðum að sannreyna hverjir foreldrar þeirra eru með DNA-rannsókn og komast að því hvort að staðgöngumæður gengu með þau.“

Lögreglan segir að rannsóknin gæti tekið margar vikur.  

Taílenska lögreglan hefur nú tekið mál barna, sem staðgöngumæður ganga með, fastari tökum. 

Í frétt AFP-fréttastofunnar kemur fram að staðgöngumæðrun sé ólögleg í Taílandi, nema að ættingi gangi með barn foreldranna. Þá sé stranglega bannað að þiggja greiðslur fyrir staðgöngumæðrun, líkt og talið er að hafa átt sér stað í tilfelli Gammys litla. 

Í drögum að nýju frumvarpi um staðgöngumæðrun á Taílandi er enn hert á viðurlögum við ólöglegri staðgöngumæðrun. Hver sá sem gerist brotlegur við lögin, hvort sem það er læknir, eggja- eða sæðisgjafi, staðgöngumóðir eða foreldrar, getur átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert