Milljarðar til að bæta þjálfun og auka traust

Kviðdómur úrskurðaði í síðustu viku að lögreglumaðurinn Darren Wilson hefði …
Kviðdómur úrskurðaði í síðustu viku að lögreglumaðurinn Darren Wilson hefði skotið Michael Brown í sjálfsvörn. Í kjölfar úrskurðarins blossuðu upp mótmæli og óeirðir í bænum Ferguson þar sem atvikið átti sér stað. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur óskað eftir 263 milljónum dala, sem samsvarar um 32 milljörðum króna, til að bæta þjálfun lögreglumanna, kaupa myndavélar sem lögreglumenn geta fest á sig og til þess að auka traust í Ferguson í Missouri.

Fundað hefur verið í Hvíta húsinu í Washington um óeirðirnar sem brutust  út í Ferguson nýverið og hefur Obama farið fram á við Bandaríkjaþing að samþykkja þessa fjárveitingu.

Óeirðir brutust út í Ferguson í síðustu viku eftir að kviðdómur ákvað á ákæra ekki hvítan lögreglumann sem skaut þeldökkan óvopnaðan mann til bana. Víða í Bandaríkjunum komu menn svo saman ttil að mótmæla í framgöngu lögreglunnar. 

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að fjárveitingunni yrði útdeilt á þriggja ára tímabili. M.a. á að verja fjárhæðinni til að kaupa myndavélar fyrir lögreglumenn og til að efla starfsemi löggæslustofnana. 

Þá vill forsetinn setja á laggirnar sérstakan hóp sem á að vinna að því að nútímavæða lögregluna. Charles Ramsey, lögreglustjóri í Fíladelfíu, á að leiða þá starfsemi. 

Lögreglumaðurinn Darren Wilson sem skaut unglinginn Michael Brown til bana mun láta af störfum. Þetta tilkynnti lögfræðingur Wilsons um liðna helgi.

Wilson ákvað að segja af sér í ljósi ítrekaðra hótana sem borist hafa lögreglustöðinni þar sem hann starfaði. Wilson sagðist segja af sér af fúsum og frjálsum vilja, um erfiða ákvörðun hafi verið að ræða en hann vilji ekki stefna öðrum í hættu með veru sinni í lögregluliðinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert