Ferðalangur fannst látinn á Koh Tao

Koh Tao er vinsæl meðal ferðalanga.
Koh Tao er vinsæl meðal ferðalanga. AFP

Breskur bakpokaferðalangur sem fannst látinn á taílensku eyjunni Koh Tao hafði innbyrt lífshættulegt magn af áfengi og kvíðastillandi lyfinu valíum.

Lögregla á svæðinu greindi frá þessu eftir að niðurstaða bráðabirgðakrufningar var gerð ljós. Ferðalangurinn, Christina Annesley var 23 ára gömul. Hún fannst látin í ferðamannakofa á Koh Tao á miðvikudaginn. 

Að sögn lögreglu voru engin merki um nauðgun á konunni, en krufningarskýrsla verður gefin út innan þriggja daga. 

Aðeins eru fjórir mánuðir liðnir síðan að breskt par fannst myrt á sömu eyju. Tveir karlmenn frá Búrma hafa verið ákærðir fyrir morðið á David Miller sem var 24 ára og fyrir nauðgun og morð á Hannah Witheridge sem var 23 ára. Mennirnir tveir hafa báðir dregið játningar sínar til baka. Lögregla á eyjunni hefur verið harðlega gagnrýnd vegna rannsóknar á málinu. 

Lögregla í Koh Tao sagði í dag að enginn merki væri um að dauði Annesley hafi borið að með saknæmum hætti. Til þess að forðast gagnrýni sendi lögreglan líkið þó til Bangkok þar sem það gekkst undir krufningu á sunnudaginn. 

Á Twitter síðu sinni tjáði Annesley sig stuttu fyrir dauða sinn um fegurð Koh Tao og hvítu strandanna þar sem eru vinsældar meðal ferðamanna og kafara. 

Sagðist hún jafnframt hafa tekið verkjalyfið Tramadol og Valíum dagana fyrir dauða sinn. 

Lögregla sagðist hafa fundið þrjár gerðir af lyfjum í herbergi hennar, en engin ólögleg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert