Skipstjórinn í 16 ára fangelsi

Skemmtiferðaskipið Costa Concordia steytti á skeri í janúar 2012 með …
Skemmtiferðaskipið Costa Concordia steytti á skeri í janúar 2012 með þeim afleiðingum að tugir létust. AFP

Francesco Schettino, sem var skipstjóri farþegaskipsins Costa Concordia, hefur verið dæmdur í 16 ára fangelsi. Schett­ino er ákærður fyr­ir að hafa valdið dauða 32 farþega skips­ins, þegar það strandaði und­an eyj­unni Giglio árið 2012.

Við aðalmeðferð málsins kenndi Schettino áhöfninni um það sem fór úrskeiðis og neitaði sök.

„Ég er vilj­ug­ur til að axla einn hluta ábyrgðar­inn­ar, en aðeins einn part,“ sagði hann. Skipstjórinn hélt því fram að verið væri að gera hann að blóraböggli.

Costa Concordia, sem er tvisvar sinn­um stærri en Tit­anic var, sigldi á 16 hnút­um og bar 4.229 ein­stak­linga frá 70 þjóðlönd­um inn­an­borðs þegar það sökk.

Réttarhöldin yfir Schettino, sem er 54 ára gamall, stóðu yfir í 19 mánuði og var dómur kveðinn upp yfir honum í kvöld. Schettino getur áfrýjað dómnum til æðra dómstigs. 

Schettino brast í grát við aðalmeðferðina þegar hann bað dómarana um miskunn. Hann var ákærður fyrir manndráp, fyrir að hafa valdið skipbroti og fyrir að yfirgefa skipið á meðan áhöfn og farþegar voru enn um borð. 

Saksóknarar kröfðust þess að hann yrði dæmdur í 26 ára fangelsi. 

Francesco Schettino.
Francesco Schettino. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert