Handtekinn vegna skotárásarinnar

Tvítugur maður hefur verið handtekinn vegna árásar á tvo lögregluþjóna í mótmælum í borginni Ferguson í Bandaríkjunum. Hefur maðurinn, Jeffrey Williams, verið kærður fyrir árásina og eins fyrir brot á skotvopnalögum. 

Lögregluþjónarnir tveir særðust á kinn og öxl við skotárásina í mótmælunum á fimmtudag í borginni Ferguson en borgin hefur verið mikið í sviðsljósinu frá því í ágúst í fyrra þegar þeldökkur piltur, Michael Brown, var skotinn af hvítum lögregluþjóni.

Frétt mbl.is: Samfélagið á nálum í Ferguson

Robert McCulloh, saksóknari, segir Williams vera búinn að játa aðild sína að skotárásinni en segir ekki víst hvort hann hafi ætlað sér að skjóta á lögregluþjónana. Þá bætti hann við að lögregla sé búin að leggja hald á skotvopnið og að talið sé að Williams hafi staðið einn að skotárásinni. Williams, sem er dökkur á hörund, hafði tekið þátt í friðsælum mótmælum fyrr um kvöldið sem árásin átti sér stað en mótmælin fóru fram fyrir utan höfuðstöðvar lögreglu í borginni.

Mótmælin fóru fram í kjölfar afsagnar lögreglustjórans í Ferguson. Lögreglustjórinn sagði af sér eftir að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að kynþáttafordóma gætti innan lögregluembættisins í Ferguson. 

Frétt breska ríkisútvarpsins um málið.

McCulloch, saksóknarinn í St. Louis sýslu, á blaðamannafundi.
McCulloch, saksóknarinn í St. Louis sýslu, á blaðamannafundi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert