Afhjúpa ódýrasta snjallsíma heims

Snjallsími. Indverska fyrirtækið Ringing Bells ætlar að afhjúpa nýja símann …
Snjallsími. Indverska fyrirtækið Ringing Bells ætlar að afhjúpa nýja símann í dag. AFP

Lítt þekkt indverskt fyrirtæki, Ringing Bells, mun í dag afhjúpa nýjan snjallsíma sem talið er að verði ódýrasti snjallsími í heimi.

Síminn nefnist Freedom 251 og á að kosta um 940 krónur. Það er aðeins um eitt prósent af verði nýjasta iPhone-síma fyrirtækisins Apple.

Ringing Bells var stofnað í september í fyrra og hóf sölu á farsímum í gegnum vefsíðu sína fyrir nokkrum vikum.

„Þessi sími er flaggskipið okkar og við teljum að hann eigi eftir að gjörbreyta þessum iðnaði,“ sagði talskona fyrirtækisins.

Ringing Bells flytur inn mismunandi hluta úr símum frá öðrum löndum og setur þá saman á Indlandi. Fyrirtækið vonast til að framleiða sína eigin síma frá grunni innan eins árs.

Ódýrir snjallsímar, margir hverjir kínverskir, eru þegar fáanlegir á indverska markaðinum. Undanfarið hafa heimamenn verið að færa sig upp á skaftið og hafa selt síma sína á innan við 2.600 krónur.

Næststærsti snjallsímamarkaður heims er á Indlandi. Í október síðastliðnum hafði einn milljarður snjallsíma selst þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert