Stakk ellefu börn með hnífi

Wikipedia

Karlmaður vopnaður eldhúshnífi stakk ellefu börn í leikskóla í suðurhluta Kína í dag með þeim afleiðingum að þrjú þeirra særðust alvarlega. Maðurinn kom inn á leikskólann, sem er í héraðinu Guangxi Zhuang, og sagðist vera að sækja son sinn.

Fram kemur í frétt AFP að maðurinn hafi síðan klifrað yfir vegg til þess að komast þangað sem börnin voru. Maðurinn var handtekinn í kjölfar árásarinnar. Rannsókn er hafin á árásinni en slíkar hnífaárásir eru ekki óalgengar í Kína segir í fréttinni. 

Börnin sem særðust alvarlega voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Ekki er vitað hvað manninum gekk til. Rifjað er upp í fréttinni að í febrúar á síðasta ári hafi karlmaður sært tíu börn í héraðinu Hainan og síðan svipt sjálfan sig lífi.

Þá hafi karlmaður stungið þrjú börn og kennara þeirra til bana árið 2014 og sært nokkur önnur í grunnskóla sem hafði neitað dóttur hans um skólavist. Sömuleiðis hafi karlmaður myrt tvo ættingja sína og síðan ráðist á ellefu manns, þar á meðal sex börn, fyrir utan skóla í borginni Shanghai.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert