Árásarmaðurinn er 26 ára

AFP

Fyrrverandi hermaður skaut 26 kirkjugesti til bana í smábæ í Texas í gær. Yfir 20 særðust í árásinni. Árásarmaðurinn, Devin Kelley, 26 ára, sem lögreglan lýsir sem ungum hvítum karlmanni, fannst látinn í bifreið sinni eftir árekstur. Fórnarlömbin eru frá fimm ára upp í 72 ára gömul.

AFP

Kelley kom svartklæddur frá toppi til táar vopnaður hríðskotariffli inn í kirkju baptista í bænum Sutherland Springs klukkan 11:20 að staðartíma, klukkan 17:20 að íslenskum tíma. Íbúar Sutherland Springs eru um 400 talsins en bærinn er í um 50 km fjarlægð frá San Antonio. Þegar hann kom inn í kirkjuna hóf hann skothríð úr Ruger AR rifflinum. Kirkjugestur náði rifflinum af Kelley þegar hann var að fara út úr kirkjunni og elti árásarmanninn. 

Nokkru síðar fundu lögreglumenn Kelley látinn í bifreið sinni, sem hafði verið ekið á. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort hann framdi sjálfsvíg eða hvort maðurinn sem elti hann hafi skotið hann til bana.

AFP

Meðal þeirra sem létust í árásinni er fjórtán ára gömul dóttir prestsins en auk hennar eru fleiri börn fórnarlömb árásarinnar. Einhver þeirra liggja þungt haldin á sjúkrahúsi en önnur létust.

Devin Kelley gegndi herþjónustu í flugher Bandaríkjanna í Nýju-Mexíkó. Hann hóf herþjónustu árið 2010 en var vikið úr hernum eftir að hafa verið dæmdur í fangelsi fyrir heimilisofbeldi árið 2012 fyrir ofbeldi gagnvart eiginkonu og barni. Hann var laus allra mála árið 2014, samkvæmt upplýsingum AFP frá flughernum.

AFP

 Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, varð tíðrætt um samstöðu Bandaríkjamanna á Twitter í nótt en hann hefur hins vegar ekki talað um illmenni eða neitt slíkt varðandi árásarmanninn núna líkt og hann gerði þegar árás var gerð í New York í síðustu viku. Þá létust átta en 26 núna. Viðbrögð forsetans nú eru svipuð og þegar hvítur karl drap 58 manns af handahófi í Las Vegas nýverið.

Lögreglan við heimili Devin Kelley.
Lögreglan við heimili Devin Kelley. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert