Banna ígræðslu neta í leggöng

Læknar víða um heim hafa grætt net í leggöng kvenna. ...
Læknar víða um heim hafa grætt net í leggöng kvenna. Í janúar verður slíkt bannað í Nýja Sjálandi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Nýja-Sjáland hefur nú fyrst landa bannað ígræðslu neta í leggöng kvenna eftir að efasemdir hafa vaknað um öryggi og árangur slíkra aðgerða. Netin hafa verið notuð af lækn­um víða um heim, þar á meðal á Íslandi, til að lag­færa blöðru-, leg- og endaþarms­sig kvenna, en þau er sett und­ir slím­húðina í leggöng­un­um. The Guardian greinir frá.

Ýmis vand­kvæði og auka­verk­an­ir hafa komið upp í tengsl­um við net­in og hafa kon­ur lýst óbæri­leg­um sárs­auka vegna þeirra. Sum­ar kvenn­anna geta jafn­vel ekki gengið vegna sárs­auka og ekki stundað kyn­líf. Þær segja lífs­gæði sín hafa skerst veru­lega. Hundruð Ástr­alskra kvenna standa nú í hóp­mál­sókn á hend­ur lækn­inga­vöru­fram­leiðand­an­um John­son & John­son, sem fram­leiðir slík net, en þær telja sig hafa verið tilraunadýr framleiðandans. Sam­bæri­leg dóms­mál eru einnig í gangi fyr­ir dóm­stól­um í Kan­ada og Banda­ríkj­un­um.

Kristín Jónsdóttir, yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans, sagði í samtali við mbl.is í haust að netin hefðu ekki verið prófuð nógu vel áður en þau voru sett á markað. Þá sagði hún netin oft notuð í þeim tilfellum þar sem aðrar aðferðir hentuðu betur. Sjálf sagðist hún ekki nota netin nema af illri nauðsyn þegar allar aðrar aðferðir hefðu verið reyndar.

Hún sagði netin hafa verið sett á markað sem lausn fyrir reynslulitla lækna til að framkvæma aðgerðir á þessu svæði. „Þetta er svæði sem erfitt er að gera aðgerðir á og maður þarf mikla þjálf­un. Það get­ur tekið lang­an tíma að þjálfa sig upp. Þetta er stórt vanda­mál. Það eru marg­ar kon­ur með blöðru- og leg­sig, þannig það eru kannski marg­ir að gera aðgerðir án þess að hafa nógu mikla reynslu. Netið var sett á markaðinn sem lausn­in, en sýndi sig svo að það voru ýmis vand­kvæði, af því það var ekki búið að rann­saka það nógu mikið.“

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti Nýja Sjálands sem send var út á mánudag dag kom fram að ráðuneytið hefði ritað helstu framleiðendum slíkra neta bréf og krafist þess að þeir myndu hætta markaðssetningu þeirra í landinu, nema þeir gætu sannað að vörur þeirra væru öruggar. Bann við sölu netanna tekur að öllu óbreyttu gildi þann 4. janúar næstkomandi.

Ákvörðuninni hefur verið fagnað af þeim sem barist hafa gegn notkun netanna, enda eru aukaverkanir sem ísetning þeirra getur haft í för með sér algjörlega óásættanlegar, að þeirra mati. Læknar hafa hins vegar lýst yfir áhyggjum vegna þess hve víðtækt bannið er.

Þeir hafa bent á að dregið hafi úr notkun neta þegar lagfæra á sig þar sem líffæri eins og þvagblaðra eða endaþarmur bunga inn í leggöngin. Þeim læknum hafi fækkað sem noti það sem fyrsta val. Margir læknar noti netin hins vegar í aðgerðum til að draga úr þvagleka, en netin eru sögð hafa marga kosti fram yfir hefðbundnar skurðagerðir.

„Nýja Sjáland verður eina landið sem bannar þessar vörur og verður það til þess að konum stendur ekki lengur til boða áhrifarík aðgerð til að draga úr óþægilegum og hvimleiðum kvilla,“ sagði Giovanni Losco, talsmaður þvagfærasérfræðinga á Nýja Sjálandi og í Ástralíu.

mbl.is
Til sölu Benz A180 sjálfskiptur árg 2013 eins og nýr ek. 20þús.
Til sölu er Benz A180 bensín og sjálfskiptur, með bakkmyndavél, ekinn aðeins 20....
Aupair í Bandaríkjunum
Við óskum eftir aupair til að aðstoða við að reka heimilið. Vinnan felst fyrst o...
Til sölu Opel Vectra árg. 2000
Til sölu Opel Vectra árg 2000 einn með öllu,skoðaður 2019 ekin 123000km ný framd...