Banna kynlíf og „slæmar venjur“

Gubanguly Berdymukhamedov forseti Túrkmenistan.
Gubanguly Berdymukhamedov forseti Túrkmenistan. Ljósmynd/Wikipedia.org

Sjónvarpsefni sem sýnir kynlíf og ýtir undir „slæmar venjur“ er bannað samkvæmt lögum í Túrkmenistan. Í lögunum, sem voru samþykkt um helgina, er jafnframt tekið fram að þetta sé gert til að skapa „jákvæða ímynd“ landsins. 

Forseti landsins, Gubanguly Berdymukhamedov, sem skrifaði undir lögin segir það hafa verið gert til að „vernda ungviðið“ fyrir erótísku efni, samkvæmt dagblaðinu Neutral Turkmenistan.

Hins vegar er ekki tilgreint nákvæmlega hvað felist í „slæmum siðum“ og ekki er heldur nákvæm skilgreining á „klámi“ eða „erótísku efni“ í lögunum. Í þeim er enn fremur dagskrárgerðarfólki sjónvarps og útvarps gert skylt að framleiða efni sem „sýnir jákvæða ímynd Túrkmenistan“. 

Í þónokkurn tíma hafa sjónvarpsstöðvar ritstýrt erlendum kvikmyndum sem þær hafa sýnt með því að klippa út þau myndbrot sem sýna kynlíf.  

Vart þarf að taka fram að frelsi fjölmiðla í landinu er ákaflega takmarkað og nánast einræði ríkir. Samtök fréttamanna án landamæra segja landið vera þriðja versta ríki heims fyrir fjölmiðla að starfa í. 

Íbúar Túrkmenistan hafa ekki tekið þessum breytingum þegjandi og hljóðalaust og hafa í ríkari mæli keypt sér gervihnattadisk til að geta horft á það sjónvarpsefni sem þeim sýnist. Stjórnvöld eru ekki sátt við þessa þróun og hafa gert fjölmarga diska upptæka á síðustu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert