„Bókari Auschwitz“ látinn

Oskar Gröning.
Oskar Gröning. AFP

Oskar Gröning, einnig þekktur sem „bókari Auschwitz" er látinn 96 ára að aldri. Árið 2015 var Gröning dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir aðild að drápi á 300 þúsund gyðinga í útrýmingarbúðum nasista í Póllandi, Auschwitz, en hóf aldrei afplánun vegna endurtekinna áfrýjunar dómsins.

Samkvæmt frétt Spiegel lést hann á sjúkrahúsi á föstudag. BBC greinir frá þessu. 

Hans helsta starf í Auschwitz var að flokka pen­inga sem stolið var frá gyðing­um sem tekn­ir voru af lífi eða notaðir í þræla­haldi búðanna. Pólsk slot, grísk­ar drakk­mör, franskri frank­ar, hol­lensk gyll­ini og ít­alsk­ar lír­ur. 

Gröning var 21 árs gamall þegar hann hóf störf sem fangavörður í Auschwitz og við réttarhöldin játaði hann að hafa vitað og séð fjölmarga tekna af lífi en hann neitaði því að hafa átt beina aðild að morðunum. 

„Ég bið um fyrirgefningu. Ég deili sökinni siðferðislega en hvort ég er sekur samkvæmt hegningarlögum er ykkar að ákveða,“ sagði Gröning þegar hann ávarpaði dómarana við réttarhöldin á sínum tíma.

mbl.is