Lýstu yfir sakleysi án þess að blikna

Lögfræðingurinn Yves Beigbeder var viðstaddur Nürn­berg-rétt­ar­höld­in.
Lögfræðingurinn Yves Beigbeder var viðstaddur Nürn­berg-rétt­ar­höld­in. Af vef Sameinuðu þjóðanna

Hann horfði í augu Hermanns Görings og Rudolfs Hess og sá þá lýsa yfir sakleysi án þess svo mikið sem blikka augunum. Nú, 75 árum eftir Nürn­berg-rétt­ar­höld­in, er Frakkinn Yves Beigbeder sannfærður um að heimurinn þurfi á alþjóðlegum dómstól að halda. Beigbeder er 96 ára gamall og einn fárra sem enn eru á lífi af þeim sem voru viðstaddir réttarhöldin yfir leiðtogum nasista í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. 

Göring og Hess voru meðal þeirra sem voru dæmdir í Nürn­berg. Sá fyrri framdi sjálfsvíg skömmu áður en það átti að hengja hann en Hess lést í fangelsi í Berlín árið 1987.

Beigbeder var frændi franska dómarans Henris Donnedieus de Vabres og var beðinn að aðstoða dómarana við réttarhöldin. Beigbeder var tvítugur að aldri þegar hann kom til þýsku borgarinnar sem þá var undir yfirráðum Bandaríkjamanna. Nürn­berg, sem áður var táknmynd þriðja ríkisins, var nú lituð af bandarískri menningu, svo sem hamborgurum og freyðandi drykkjum. 

Hermann Göring í fangaklefa sínum.
Hermann Göring í fangaklefa sínum. AFP

Hann starfaði í hálft ár við dómstólinn sem aðstoðarmaður og tók saman yfirlit fyrir dómarana. Beigbeder segir að á  hverjum degi hafi hann fengið í hendur orðrétt endurrit frá þinghaldinu, skrifað yfirlit upp á 2-3 blaðsíður og lesið það síðan fyrir ritarana. Stundum var hann sjálfur viðstaddur réttarhöldin. 

Auk Hess og Görings hlýddi Beigbeder á fyrrverandi yfirmann öryggismála, Ernst Kaltenbrunner, Wilhelm Keitel yfirherforingja og leiðtoga Hitlers-æskunnar, Baldur von Schirach. 

„Það var tilkomumikið, sérstaklega út frá andhverfunni – fjölmennum skrúðgöngum Hitlers og upphafningu Nasistaflokksins. Þarna voru þeir í síðum jökkum, án heiðursmerkja og niðurlútir,“ segir Beigbeder í viðtali við AFP á heimili hans við hlíðar Pýreneafjallanna í Suðvestur-Frakklandi. 

Hér sést Yves Beigbeder við réttarhöldin í Nürn­berg.
Hér sést Yves Beigbeder við réttarhöldin í Nürn­berg. Af vef Sameinuðu þjóðanna

Það komu augnablik þar sem hryllingurinn varð allt of ljós varðandi það sem gerðist segir Beigbeder. Hann rifjar upp vitnisburð  Rudolfs Höss, fyrrverandi yfirmanns Auschwitz-útrýmingarbúðanna. Skömmu áður höfðu verið sýndar myndir í réttarsalnum af líkum í búðunum.

„Vitnisburðurinn var óbærilegur því hann lýsti aðgerðunum í smáatriðum án þess að bregða svip. Rólegur og yfirvegaður eins og hann væri að tala um verslanir eða eitthvað í þá áttina.“ 

Líkt og aðrir sem voru viðstaddir réttarhöldin talar Beigbeder um sjálfstraust Görings sem lýsti sjálfum sér sem mikilvægasta einstaklingnum þar. Göring hafi verið fullur sjálfstrausts allan tímann og mjög öruggur með sig. Hann hafi ekki þolað þegar aðrir játuðu eða sökuðu aðra um að bera ábyrgð. Aðrir voru fljótir að saka aðra um að bera ábyrgðina og að þeir sjálfir væru saklausir sem lömb. „Það var ekki ég. Það var Hitler. Ég er ekki sekur, eða ég vissi ekkert,“ segir Beigbeder. 

Adolf Hitler sést hér ásamt borgarstjóranum Willy Liebel í dýragarðinum …
Adolf Hitler sést hér ásamt borgarstjóranum Willy Liebel í dýragarðinum í Nürn­berg. Myndin er tekin 2. maí 1939. Ljósmynd/Bundesarchiv

Það tók Beigbeder mörg ár að melta það sem hann varð vitni að. Áður en réttarhöldunum lauk fór hann á skólastyrk til Bandaríkjanna og starfaði við góðan orðstír sem lögfræðilegur ráðgjafi hjá alþjóðasamtökum.

Það var ekki fyrr en á tíunda áratugnum sem hann gerði sér í raun og veru grein fyrir mikilvægi alþjóðlegra dómstóla. Til að mynda varðandi Júgóslavíu fyrrverandi, Rúanda og Síerra Leóne. Mikilvægi Nürn­berg-rétt­ar­haldanna sem forvera alþjóðlegra stríðsglæpadómstóla. 

Hann skrifaði fimm bækur um starf þessara alþjóðlegu dómstóla og segir að Nürn­berg-rétt­ar­höld­in hafi verið fyrirmynd þeirra. „Það er alltaf hægt að gagnrýna þau því þetta voru réttarhöld sigurvegaranna en framgangurinn, réttindi varnarinnar voru tryggð og dómarnir voru ásættanlegir og mismunandi.“

Alþjóðasakamáladómstólinn (ICC) í Haag.
Alþjóðasakamáladómstólinn (ICC) í Haag. JERRY LAMPEN

Hann segist vonast til þess að nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, geti haft áhrif til batnaðar á alþjóðaglæpa­dóm­stól­inn (ICC) sem hóf starfsemi árið 2002. 

Beigbeder var einn fárra sem voru viðstaddir Nürn­berg-réttarhöldin og voru boðnir aftur til borgarinnar þegar 70 ár voru liðin frá stofnun hans. Ekkert varð af afmælishaldi í haust þegar 75 ár voru liðin vegna Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert