Lula fer á bak við lás og slá

Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, þarf nú að öllum líkindum að afplána tólf ára dóm sem hann hlaut fyrir spillingu eftir að hæstiréttur landsins féllst ekki á beiðni hans um að fresta afplánun þar til ný áfrýjunarbeiðni hans verður tekin fyrir.

Nú er búist við því að fljótlega verði forsetinn, sem oftast er kallaður Lula, boðaður til afplánunar. Sérfræðingar telja að það muni gerast innan fárra daga. 

Ellefu dómarar hæstaréttar tóku sér tíu klukkustundir í gær og fyrradag til að fara yfir beiðni Lula um að komast hjá afplánun á meðan hann gerir enn eina tilraunina til að fá dómnum snúið við með áfrýjun. Fimm dómarar vildu fallast á beiðni Lula en fimm ekki og var það því forseti hæstaréttarins, Carmen Lucia, sem hafði úrslitavald í málinu. Sagði hún að ef afplánun yrði frestað yrði litið á það sem refsileysi. 

Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, nýtur mikil …
Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, nýtur mikil fylgis meðal fátækustu íbúa landsins. AFP

Brasilíska þjóðin er sögð jafn klofin í málinu og dómararnir og hafa vaknað spurningar um framkvæmd lýðræðisins í landinu meðal annars eftir að einn æðsti maður hersins hvatti til þess að hinn 72 ára gamli fyrrverandi forseti og stofnandi Verkamannaflokksins yrði fangelsaður.

Á hægri væng stjórnmálanna er litið á Lula sem holdgerving spillingar sem grasserar meðal hinnar pólitísku yfirstéttar landsins. 

Segja málið blekkingaleik

Vinstrimenn segja hins vegar að á valdatíð sinni á árunum 2003-2010 hafi Lula tekist að lyfta grettistaki í velferðarmálum og komið tugum milljóna manna út úr fátækt.

Í þeirra huga er spillingarmálið allt blekkingaleikur sem er til þess fallinn að firra spillta stjórnmálamenn á hægri vængnum ábyrgð, m.a. núverandi forseta, Michel Temer.

„Þetta er sorgardagur fyrir lýðræðið í Brasilíu,“ skrifaði Gleisi Hoffmann, núverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, á Twitter. 

Kosið verður til forseta í Brasilíu í haust og eru tveir menn að fara að bítast um embættið samkvæmt skoðanakönnunum. Annar þeirra er Lula. Hinn er hershöfðinginn fyrrverandi Jair Bolsonaro. 

Vildi bíða áfrýjunar

Lula var dæmdur til 12 ára fangelsisvistar eftir að hafa í fyrra verið fundinn sekur um að hafa þegið íbúð við sjávarsíðuna sem mútur frá verktakafyrirtæki sem var að leita samninga við ríkið. Hann áfrýjaði málinu á lægra dómstigi en tapaði.

Samkvæmt núgildandi lögum ætti hann í kjölfarið að hefja afplánun jafnvel þótt til standi að áfrýja málinu á æðra dómstigi. Hins vegar sóttist Lula eftir því að fá að ganga laus á meðan dómstólar myndu fjalla um aðra áfrýjun hans í málinu.

Stuðningsmaður Luiz Inacio Lula da Silva í mótmælagöngu.
Stuðningsmaður Luiz Inacio Lula da Silva í mótmælagöngu. AFP

Dómarar við hæstarétt landsins þurftu að taka ákvörðun undir óvenjulegum pólitískum þrýstingi. Í fyrrakvöld mótmæltu um 20 þúsund manns í Sao Paulo og kröfðust þess að Lula yrði fangelsaður og honum bannað að taka þátt í forsetakosningunum. 

Þá sendu yfir 5.000 dómarar og saksóknarar hæstarétti bréf um sama efni, þ.e. fóru fram á að Lula yrði látinn hefja afplánun strax. Þá hafa dómararnir einnig fengið þúsundir tölvupósta um sama efni.

Á sama tíma er Lula gríðarlega vinsæll hjá stórum hluta þjóðarinnar, aðallega þeim fátækari. Fari hann í fangelsi gæti það haft þau áhrif að hann gæti ekki boðið sig fram til forseta jafnvel þótt kosningadómstóll, sem mun fjalla um rétt hans til framboðs, fallist á framboðið. 

Verkamannaflokkurinn telur að brasilíska þjóðin eigi rétt á að fá að kjósa um Lula í forsetaembættið og á twittersíðu flokksins var því í gær lofað að baráttan myndi færast út á götur, allt til enda. 

„Þetta er farsi, þetta er mikið högg. Ég get ekki fallist á það að Lula taki ekki þátt í kosningunum,“ segir einn stuðningsmaður Lula, sögukennarinn Maria Lucia Minoto Silva. „Ég get ekki samþykkt að saklaus maður fari í fangelsi.“

Mesti þrýstingurinn um að neita beiðni Lula kom frá hershöfðingja. Sá braut þar með þá hefð að menn í hans stöðu skiptu sér ekki opinberlega að stjórnmálum. 

Hershöfðinginn Eduardo Villas Boas skrifaði á Twitter á þriðjudag færslu um að virða bæri lög landsins og ekki dygði að setja persónulega hagsmuni framar þjóðhagslegum.

Ummæli hans vöktu athygli, m.a. Amnesty International, sem sögðu þau ógn við lýðræði landsins. Herforingjastjórn var í Brasilíu í tvo áratugi til ársins 1985 og hafa hershöfðingjar ekki skipt sér af stjórnmálum síðan. 

Ákvörðun hæstaréttar í máli Luiz Inacio Lula da Silva var …
Ákvörðun hæstaréttar í máli Luiz Inacio Lula da Silva var sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert