Segja Netanyahu „illræmdan lygara“

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, hefur sagt yfirlýsingar Netanyhus vera …
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, hefur sagt yfirlýsingar Netanyhus vera barnalegar. AFP

Írönsk stjórnvöld segja Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels vera „illræmdan lygara“, vegna ásakana sem hann hefur látið falla um leynilega kjarnorkuvopnaáætlun Írana.

Net­anya­hu sakaða Írani í gær um að hafa haldið áfram að þróa kjarna­vopn frá því árið 2003, er op­in­ber­lega  var sagt að hætt hefði verið við verk­efnið. Ásakanirnar hafa myndað gjá á milli Vesturveldanna aðeins nokkrum dögum áður en Donald Trump Bandaríkjaforseta á að ákveða hvort að hann muni rifta kjarnorkusamninginum við Írani.

Stjórnvöld í Frakklandi segja hluta upplýsinganna hafa legið fyrir þegar árið 2002 og hafa lagt áherslu á að samninginum verði ekki rift. Bandarískir ráðamenn hafa hins vegar sagt þetta sönnun þess að samningurinn hafi ekki byggt á réttum forsendum.

Trump hefur áður gefið í skyn að hann hyggist rifta samninginum. Bresk og frönsk hafa hins vegar hvatt til þess að hann verði virtur áfram.

Bahram Ghasemi, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, segir ásakanir Netanyahus vera „útjaskaðar, gagnslausar og skammarlega.“ Áður hafði Mohammad Javad Zarif, ut­an­rík­is­ráðherra Írans, sagt full­yrðing­ar Net­anya­hus vera „barna­lega“ brellu til að hafa áhrif á Trump og hvetja hann til að slíta kjarn­orku­samn­ing­in­um. Sagði hann skjölin vera endurunnið efni gamalla áskana sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefði þegar tekið afstöðu til.

IAEA hefur ekki brugðist beint við ásökunum Netanyahus, en hefur vísað í skýrslu sína frá 2015 þar sem segir að ákveðnar vísbendingar hafi fundist árið 2003 sem bendi til þróunar kjarnavopns. Í sömu skýrslu kemur hins vegar fram að „engar trúverðugar vísbendingar um þróun kjarnavopna hafi fundist í Íran eftir 2009“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert