Pompeo segir Írana ljúga að umheiminum

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir margt koma fram í skjölunum …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir margt koma fram í skjölunum sem bandarísku leyniþjónustunni hafi verið ókunnugt um. AFP

Mike Pompeo, innanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir leynileg skjöl sem ráðamenn Ísraelsríkis fullyrða að þeir hafa undir höndum, sýna að stjórnvöld í Íran hafi logið að umheiminum og að þau hafi þróað kjarnavopn í laumi í lengri tíma.

BBC hefur eftir Pompeo að upplýsingarnar gefi til kynna að kjarnorkusamningurinn sem gerður var við Íran hafi ekki byggt á réttum upplýsingum. Margt sem þar komi fram hafi bandarískir leyniþjónustumenn ekki séð áður.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lengi vel gefið í skyn að hann vilji rifta samninginum og er búist við að hann taki ákvörðun um málið á næstu vikum.

Stjórnvöld í Íran hafa alfarið neitað ásökununum og segja um „endurvinnslu gamalla ásakanna“ að ræða.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sakaða Írani í gær um að halda uppi leynilegri kjarnavopnaáætlun sem bæri nafnið Amad verkefnið. Fullyrti Netanyahu að Íranar hefðu haldið áfram að þróa kjarnavopn frá því árið 2003, er opinberlega  var sagt að hætt hefði verið við verkefnið.

Lagði Netanyahu fram það sem hann sagði sönnunargögn í formi þúsunda „leynilegra kjarnorkuskjala“ sem sýni fram á áætlanir Írana í þessu máli.

Stjórnvöld í Íran hafa alltaf hafnað því að þau væru að reyna að eignast kjarnorkuvopn og samþykktu fyrir þremur árum síðan að leggja áætlanir um kjarnorkuver til orkuframleiðslu á hilluna gegn því að viðskiptaþvingunum væri létt.

Netanyahu lagði ekki fram nein sönnunargögn þess að Íranar hefðu brotið í bága við sáttmálann frá því hann tók gildi snemma árs 2016, en fullyrti hins vegar að Amad-verkefnið væri enn í vinnslu og að það væri nú flokkað sem sérstakt „vísindaþekkingarverkefni“.

Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, segir fullyrðingar Netanyahu vera „barnalega“ brellu til að hafa áhrif á Trump og hvetja hann til að slíka kjarnorkusamninginum við Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert