Tveir Palestínumenn látnir af sárum sínum

AFP

Tveir Palestínumenn, sem særðust í átökum við ísraelska hermenn við landamæri Gaza-strandarinnar að Ísrael á dögunum, létust í dag af sárum sínum. Þetta er haft eftir palestínskum embættismönnum í frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að hinir látnu hafi verið karlmenn á aldrinum 23 ára og 21 árs samkvæmt upplýsingum frá embættismönnunum. Talið er að átökin hafi kostað að minnsta kosti 62 Palestínumenn lífið.

Til þeirra kom þegar þúsundir Palestínumanna mótmæltu við landamærin opnun bandaríska sendiráðsins í Jerúsalem en það hafði verið flutt frá borginni Tel Aviv.

Talsmaður Hamas-samtakanna, sem eru við völd á Gaza-ströndinni, sagði nýverið að flestir hinna látnu hafi verið liðsmenn samtakanna. Það hefur hins vegar ekki verið staðfest.

mbl.is