Veita hælisleitendum ókeypis heilsugæslu

Hælisleitendum bjargað um borð í Aquarius á leið sinni yfir …
Hælisleitendum bjargað um borð í Aquarius á leið sinni yfir Miðjarðarhaf. AFP

Ný ríkisstjórn spænska Sósíalistaflokksins hét því í dag að koma aftur á ókeypis heilsugæsluþjónustu fyrir hælisleitendur að því er Reuters-fréttastofan greinir frá. Heilsugæsluþjónustan var lögð niður af síðustu ríkisstjórn sem hluti af sparnaðaraðgerðum.

Þetta er í annað skipti í þessari viku sem Pedro Sanchez, nýr forsætisráðherra Spánar, sýnir hælisleitendum stuðning. Spánverjar samþykktu á mánudag að heimila björgunarskipinu Aquarius að leggjast að bryggju í Valensía eftir að stjórnvöld á Ítalíu og Möltu neituðu að taka á móti þeim 629 hælisleitendum sem þar eru um borð.

Til að koma málinu í gegn þarf spænska stjórnin að leggja fram lagafrumvarp sem þingið þarf að samþykkja. Þó að Sósíalistaflokkurinn sé ekki með nema 84 af 350 þingsætum, styðja flestir flokkar tillöguna og þykir því líklegt að hún verði samþykkt.

„Heilsugæsla og heilsuvernd eru nauðsynleg réttindi,“ sagði Isabel Celaa talsmaður stjórnarinnar á fundi með fréttamönnum.

Yfirvöld á Spáni bjóða íbúum þegar upp á alhliða heilbrigðisþjónustu, en hægri stjórn Mariano Rajoys ógilti rétt ólöglegra innflytjenda til heilsugæslu árið 2012, sem hluta af aðhaldsaðgerðum.

Síðar var hluti heilsuverndarinnar komið á aftur, en þó ekki að fullu fyrir þá 800.000 innflytjendur sem búa á Spáni án dvalarleyfis.

Einungis brot þeirra hælisleitenda og flóttamanna sem komið hafa til Evrópu frá Afríku og Miðausturlöndum undanfarin ár hafa komið til Spánar að sögn spænsku útlendingastofnunarinnar. Landamærastofnun ESB ríkjanna telur þó líkur á að straumur hælisleitenda muni aukast á ný í ár og kunna málefni hælisleitenda þá að forsætisráðherranum vandasamari í meðförum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert