Telja íkveikju ástæðu eldanna

Kona virðir fyrir sér eyðilegginguna í Mati.
Kona virðir fyrir sér eyðilegginguna í Mati. AFP

Alvarlegar grunsemdir eru uppi um að eldurinn, sem var 83 manns að bana hið minnsta í strandbænum Mati í Grikklandi hafi verið af völdum íkveikju. Þetta hefur BBC eftir Nikos Toskas ráðherra almannavarna.

Eld­arn­ir brut­ust út á mánu­dags­kvöld og hafa orðið að minnsta kosti 83 manns að bana. Bíl­ar og hús hafa brunnið til kaldra kola. Um mann­skæðustu skóg­ar­elda í nú­tíma­sögu Evr­ópu er að ræða. 

Fólk reyndi að flýja eld­ana ým­ist á hlaup­um eða í bíl­um sín­um og 26 manns, sem ekki tókst að kom­ast und­an, fund­ust í faðmlög­um í húsi í strand­bæn­um Mati um 40 kíló­metr­um norðaust­ur af Aþenu. 

60 manns hljóta enn aðhlynningu á sjúkrahúsum eftir eldana og 11 eru á bráðadeild. Tuga er enn saknað og hafa björgunarsveitir leitað í klettum í nágrenni  strandbæjarins Mati að líkum.

Varn­ar­málaráðherra Grikk­lands, Panos Kammenos, sagði fyrr í dag að ein af ástæðum þess að af­leiðing­ar skógar­eld­anna í land­inu séu jafn al­var­leg­ar og raun ber vitni, séu ólög­leg­ar bygg­ing­ar­fram­kvæmd­ir sem meðal ann­ars loki flótta­leiðum.

Kammenos ræddi við BBC í dag um skógar­eld­ana sem hafa kostað að minnsta kosti 81 manns­líf og gríðarlegt eign­artjón. Hann kom til strand­bæj­ar­ins Mati í dag þar sem æv­areiðir íbú­ar sökuðu stjórn­völd um að hafa ekki sinnt for­vörn­um. Ef það hefði verið gert hefði mann­tjónið orðið mun minna að þeirra sögn. 

mbl.is