600 göngumönnum bjargað úr sjálfheldu

Búið er að bjarga rúmlega 600 fjallgöngumönnum sem voru strandaglópar á Rinjani-eldfjallinu á indónesísku eyjunni Lombok eftir að öflugur jarðskjálfti reið þar yfir á sunnudag.

Jarðskjálft­inn, sem mæld­ist 6,4 stig, hef­ur kostað 16 manns lífið hið minnsta og rúm­lega 160 eru slasaðir. CNN-fréttastofan segir að síðustu sex göngumennirnir hafi verið fluttir niður af fjallinu í morgun eftir umfangsmiklar björgunaraðgerðir sem tæplega 200 lögreglumenn, hermenn og heilbrigðisstarfsfólk tóku þátt í.

Göngufólkið hafði orðið strandaglópar á hinum ýmsu slóðum í fjallinu, en fjöldi skriða féll í Rinjani í kjölfar skjálftans, sem átti upptök sín í nágrenni fjallsins.

Hundruð erlendra ferðamanna voru í hópi þeirra 600 sem bjargað var af fjallinu, að því er Sutopo Purwo Nugroho, talsmaður Almannavarna, greindi frá.

Göngufólk komið niður af Rinjani-eldfjallinu þar sem það varð strandaglópar …
Göngufólk komið niður af Rinjani-eldfjallinu þar sem það varð strandaglópar eftir jarðskjálftann á sunnudag. AFP

Ekki hefur hins vegar verið greint frá því hvort einhverjir göngumannanna hafi þurft frekari læknisaðstoðar við, en tveir göngumenn voru í hópi þeirra sem létust í skjálftanum. Malasísk­ur ferðamaður, sem var í göngu á Rinj­ani, og indó­nes­ísk­ur göngumaður sem varð fyr­ir grjót­hruni úr fjall­inu.

Taílenskur göngumaður, Tipatai Phusit, sagði í samtali við CNN að hann hafi verið á tindi Rinjani þegar skjálftinn reið yfir og að hann hafi séð fjölmarga fá grjót og brak í sig.

Áætla stjórnvöld að á annað þúsund heim­ila á Lom­bok hafi skemmst í skjálftunum og hundruð íbúa eru nú heim­il­is­laus­ir, en mik­ill fjöldi eft­ir­skjálfta hef­ur riðið yfir eyj­una, sem og ná­granna­eyj­una Bali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert