Íranar taka tilboði Trumps fálega

Donald Trump á fundi með stuðningsmönnum sínum í Tampa í …
Donald Trump á fundi með stuðningsmönnum sínum í Tampa í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að viðræður við stjórnvöld í Íran séu á næsta leiti en hugmyndinni hefur verið tekið illa af írönskum stjórnvöldum sem vara við því að „almannatengslabrögð“ muni ekki skila árangri.

Stjórnvöld í Íran hafa ekki svarað yfirlýsingum Trumps sem segist vera tilbúinn að eiga með þeim fund hvenær sem er, án nokkurra skilyrða. Í Íran er fólk fullt efasemda og einn þingmaður segir að samningaviðræður yrðu „niðurlæging“.

„Ég hef á tilfinningunni að þeir muni tala við okkur bráðlega,“ sagði Trump á fundi með stuðningsmönnum sínum í Tampa í Flórída í gærkvöldi. Hann bætti svo við: „En kannski ekki. Og kannski er það allt í lagi líka.“

Hann nýtti einnig tækifærið til að gagnrýna enn eina ferðina það sem hann kallar „hræðilegt og einhliða“ kjarnorkuvopnasamkomulag sem gert var milli Írans og Bandaríkjanna árið 2015. 

„Þetta er hrollvekja,“ sagði Trump um samkomulagið. „Ég vona að allt fari vel hjá Írönum. Þeir eiga í miklum erfiðleikum í augnablikinu.“

Þess er vænst að bandarísk stjórnvöld setji bráðlega viðskiptabönn á Íran á ný. Hótanir þar um hafa þegar haft miklar afleiðingar í Íran og hefur gengi ríals, gjaldmiðils landsins, fallið um tvo þriðju á síðustu sex mánuðum.

Stjórnmálamenn í Íran segja erfitt að ímynda sér samningaviðræður við stjórnvöld í Bandaríkjunum eftir að þau riftu kjarnorkusamkomulaginu í maí. Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, skrifar á Twitter að viðræðurnar á sínum tíma hafi staðið í tvö ár með aðkomu ESB, Rússa og Kínverja. Einstakt samkomulag hafi náðst og það hafi virkað vel. „Bandaríkjamenn geta aðeins sjálfum sér um kennt að hafa dregið sig til baka.“ Hann bætti svo við að hótanir, viðskiptabönn og almannatengslabrögð myndu ekki hafa áhrif. „Reynið að sýna virðingu,“ skrifaði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert