Telur samningamenn sína hleraða

AFP

Evrópusambandið hefur áhyggjur af því að breska leyniþjónustan hleri fulltrúa í samninganefnd þess í viðræðum við Bretland um fyrirhugaða útgöngu landsins úr sambandinu sem gert er ráð fyrir að taki gildi í lok mars á næsta ári. Þetta kemur fram á fréttavef Daily Telegraph.

Fram kemur í fréttinni að áhyggjurnar hafi verið viðraðar í kjölfar þess að Bretar komu höndum yfir gögn frá samninganefnd Evrópusambandsins einungis nokkrum klukkustundum eftir að þau voru kynnt á fundi háttsettra embættismanna sambandsins á fundi í síðasta mánuði.

Fjallað var um áhyggjur Evrópusambandsins á fundi ráðherraráðs sambandsins 13. júlí af háttsettum fulltrúa í samninganefndinni, Sabine Weyand, samkvæmt heimildum dagblaðsins. Fram kom að ekki væri hægt að útiloka að breska leyniþjónustan hefði hlerað fundi nefndarinnar.

Gögnin sem um ræðir eru glærusýning þar sem fram kemur gagnrýni Evrópusambandsins á tillögu ríkisstjórnar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, að samningi um tengsl landsins við sambandið eftir útgönguna sem kennd hefur verið við sumarhús ráðherrans, Chequers.

Samkvæmt fréttinni reyndu breskir embættismenn í kjölfarið að koma í veg fyrir að gögnin yrðu gerð opinber vegna gagnrýninnar sem þar kemur fram á tillögu forsætisráðherrans. Þar segir ennfremur að tekist hafi að koma í veg fyrir birtinguna. Gögnin hafi enn ekki verið birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert