Miðjarðarhaf aldrei hættulegra flóttafólki

Allur heimurinn grét vegna Alan Kurdi en nú virðist hann …
Allur heimurinn grét vegna Alan Kurdi en nú virðist hann hafa gleymt. AFP

Aldrei hefur fleira flóttafólk látið lífið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið í leit að betra lífi, en 1.600 hafa látist eða týnst það sem af er ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Í skýrslunni kemur fram að á sama tíma og flóttafólki til Evrópu hafi fækkað hafi þeim sem láta lífið á leiðinni fjölgað hratt. Á það sérstaklega við um þá sem fara yfir Miðjarðarhafið á leið sinni.

Einn af hverjum átján sem lögðu leið sína yfir mitt Miðjarðarhafið lét lífið eða týndist frá janúar og fram í júlí á þessu ári. Á sama tímabili í fyrra lést einn af hverjum 42.

Undanfarna mánuði hefur Flóttamannaaðstoð SÞ kallað eftir aukinni aðstoð Evrópuríkja við að hjálpa flóttafólki á Miðjarðarhafinu, sem og að tryggja öruggar og löglegar leiðir fyrir flóttafólk til að komast til Evrópu svo að færri þurfi að leggja í lífshættulegt ferðalag yfir Miðjarðarhaf.

Þrjú ár eru síðan ljósmynd af líki ungs drengs í sjávarborðinu, Alans Kurdis, fór eins og eldur í sinu um netheima. Metsöluhöfundurinn og sendiherra SÞ, Khaled Hosseini, segir að þrátt fyrir að þúsundir flóttamanna hafi drukknað síðan þá sé eins og heimsbyggðin hafi gleymt þessari hættu.

Það sem af er ári hafa orðið tíu sjóslys þar sem fleiri en 50 flóttamenn létust, flestir eftir að hafa lagt af stað frá Líbíu. Á sjóleiðinni frá ríkjum Norður-Afríku til Spánar hafa 300 látist eða týnst það sem af er ári. Í fyrra var heildarfjöldi þeirra 200 yfir allt árið. Í apríl komu 1.200 flóttamenn til Spánar, og hafði þá einn af hverjum fjórtán látist á leiðinni.

mbl.is