Åkesson býður Ulf Kristersson til samstarfs

Jimmie Åkesson á kjörstað fyrr í dag.
Jimmie Åkesson á kjörstað fyrr í dag. AFP

„Getiði ekki sagt eitthvað skemmtilegt. Kannski klappað,” sagði Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, meðan hann jafnaði sig á skyndilegu hóstakasti sem hann fékk er hann steig í pontu á kosningavöku flokksins til að flytja þakkarræðu sína. Flokksmenn létu ekki segja sér það tvisvar og kyrjuðu einum rómi: „Jimmie, Jimmie!“

Þegar Jimmie Åkesson hafði hóstað nægju sína hóf hann ræðuna á að þakka sjálfboðaliðum og kjósendum sem hefðu skapað sigurinn og tryggt að „allt snerist um okkur“ eins og hann orðaði það.

Åkesson sagðist tilbúinn að ræða við alla flokka að kosningum loknum, en bauð Ulf Kristersson, leiðtoga Moderaterna, þó sérstaklega til viðræðna. Það væri í samræmi við niðurstöður kosninganna.

Þegar tæp 93% atkvæða hafa verið talin eru Svíþjóðardemókratar með 17,7% fylgi, 4,7% meira en fyrir fjórum árum og útlit fyrir að flokkurinn verði, sem fyrr, þriðji stærsti flokkurinn á þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert