Skutu niður ísraelskar eldflaugar

Mynd sem fréttastofan SANA birti í dag. Á henni segir …
Mynd sem fréttastofan SANA birti í dag. Á henni segir fjölmiðillinn að sjá megi eldflaug skotna niður. AFP

Ísraelskum eldflaugum var skotið á flugvöllinn í Damaskus í Sýrlandi í dag. Loftvarnarkerfi fór í gang og skaut flaugarnar niður, segir í frétt sýrlenska ríkisfjölmiðilsins, SANA.

Engar upplýsingar um skemmdir eða mannfall fylgdu fréttinni sem höfð var eftir heimildarmanni. Fréttinni fylgdi þó myndband sem sýndi að loftvarnarkerfið fór í gang. Á myndbandinu má sjá sprengjublossa á himni.

Fréttaritari AFP-fréttastofunnar í Damaskus segist hafa heyrt háværan hvell og fleiri minni sprengingar í kjölfarið. Ísraelski herinn hefur neitað að tjá sig um málið.

Nýverið viðurkenndu Ísraelar að hafa gert yfir 200 árásir í Sýrlandi síðustu átján mánuði. Segja þeir Írana hafa verið skotmörkin en stjórnvöld í Sýrlandi hafa notið liðsinnis þeirra í stríði sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert