Tala látinna komin yfir 1.200

Tala látinna eftir náttúruhamfarirnar á indónesísku eyjunni Sulawesi er komin yfir 1.200 manns. Stjórnvöld í Indónesíu hafa staðfest að alls hafi 1.234 hafi látist og búist er við að fjöldinn aukist áfram. Í gær var staðfestur fjöldi 834. Fjórir dagar eru frá því að jarðskjálft­i sem mæld­ist 7,5 stig reið yfir eyjuna með flóðbylgj­u sem fylgdi í kjöl­farið.

Örvænting þeirra sem lifðu hamfarirnar af eykst með degi hverjum. Ástandið er einna verst í borginni Palu, þar sem 350.000 manns búa. Íbúarnir eru svangir og þyrstir og hafa gripið til þeirra örþrifaráða að ræna sér til matar.

Lögreglan hefur beitt táragasi og skotið úr byssum upp í loftið til að reyna að koma í veg fyrir búðahnupl. Lögreglan skipti sér ekki af þjófum fyrstu dagana eftir skjálftann en hefur nú handtekið 35 manns sem hafa stolið tölvubúnaði og reiðufé úr verslunum.

„Ríkisstjórnin og forsetinn hafa komið hingað en það sem við þurfum virkilega á að halda er matur og vatn,“ segir Burhanuddin Aid Masse, einn þeirra 200.000 sem Sameinuðu þjóðirnar áætla að séu í bráðri þörf fyr­ir aðstoð. Þeirra á meðal eru 46 þúsund börn og 14 þúsund eldri borg­ar­ar. Vatn og matur er af skornum skammti og spítalar eru yfirfullir af slösuðu fólki.

Undirbúa stærðarinnar fjöldagröf

Björgunaraðgerðir ganga hægt vegna skorts á vinnuvélum, óvirkum samgöngum og tregðu indónesískra stjórnvalda til að samþykkja þá aðstoð sem hefur verið boðin erlendis frá.

Lík hrúgast upp á eyjunni og rotna hratt í hitanum sem verður fljótt að gróðrarstíu fyrir lífshættulega sjúkdóma. Sjálfboðaliðar undirbúa nú stóra fjöldagröf í Pobya-hæðunum, rétt fyrir ofan Palu, þar sem áætlað er að bera 1.300 manns til grafar.

Fjórir dagar eru frá því að jarðskjálft­i sem mæld­ist 7,5 …
Fjórir dagar eru frá því að jarðskjálft­i sem mæld­ist 7,5 stig reið yfir indónesísku eyjuna Sulawesi með flóðbylgj­u sem fylgdi í kjöl­farið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert