Hvað gerði Meng af sér?

Meng Hongwei.
Meng Hongwei. AFP

Fyrrverandi forstjóri alþjóðalögreglunnar Interpol, Meng Hongwei, er til rannsóknar fyrir að hafa þegið mútur. Þetta kemur fram í tilkynningu sem ráðuneyti almannaöryggis í Kína sendi frá sér í morgun.

Meng Hongwei, sem sagði af sér í gær, þáði mútur og er grunaður um lögbrot,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. Þar kemur fram að allir þeir sem tengist málinu verði einnig rannsakaðir. Með þessu er orðið ljóst að Meng er í haldi kínverskra yfirvalda en tilkynnt var um að hans væri saknað eftir að hann hvarf 25. september þegar hann var að fara frá höfuðstöðvum Interpol í Lyon í Frakklandi. Meng var einnig vararáðherra almannaöryggis áður en hann hvarf.

Í gær greindi Interpol frá því að stofnunin hefði fengið afsagnarbréf forstjórans sent í gær og að það tæki gildi samstundis.

Eiginkona Meng, Grace Meng, segir að hún hafi fengið sent lyndistákn (emoji) hnífs frá eiginmanninum daginn sem hann hvarf. 

Meng er nýjasta þekkta manneskjan sem hverfur í Kína en auk háttsettra einstaklinga innan stjórnkerfisins hafa milljarðamæringar og þekktar manneskjur horfið sporlaust tímabundið.

Í síðustu viku kom leikkonan Fan Bingbing fram en hún hvarf í Kína í júlí. Hún baðst opinberlega afsökunar á að hafa svikið undan skatti og brotið fleiri lög. Henni var gert að greiða sekt sem nemur 883 milljónum júana, 14,7 milljarða króna.

Fréttaskýrendur velta fyrir sér hverja Meng hefur reitt til reiði því það þótti mikill heiður fyrir kínversk yfirvöld að þeirra maður skyldi verða forstjóri Interpol. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert