Trump: Fjölmiðlar láti af illdeilum

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti fjölmiðla til að láta af „endalausum …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti fjölmiðla til að láta af „endalausum illdeilum“. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvetur nú fjölmiðla til að láta af „endalausum illdeilum“ eftir að um­slög sem tal­in eru inni­halda sprengj­ur voru send til nokk­urra demó­krata, þeirra á meðal Barack Obama og Hillary Cl­int­on. Einnig barst bréf­sprengja inn á skrif­stof­ur CNN í New York.

Engin bréfasprengjanna sprakk, en bandaríska alríkislögreglan FBI leitar nú sendandans.

Forsetinn lét þessi orð falla í gær á fundi með stuðningsmönnum sínum í Wisconsin. Hét hann því að gerandinn myndi nást en hvatti um leið fjölmiðla til að binda enda á „stöðuga neikvæðni og stundum falskar árásir og fréttir“.

BBC segir gagnrýnendur Trumps segja forsetann þarna sýna af sér hræsni, þar sem hann sé sjálfur oft og tíðum orðljótur í lýsingum á andstæðingum sínum og fjölmiðlum.

Hvatti Trump á fundinum enn fremur til aukinnar kurteisi. „Þeir sem taka þátt í stjórnmálum verða að hætta að koma fram við stjórnmálaandstæðinga sína eins og þeir séu siðferðilega skertir,“ sagði forsetinn. „Enginn ætti af kæruleysi að líkja stjórnmálaandstæðingi við sögufræg illmenni líkt og oft er gert.“

Fyrr um kvöldið hafði forstjóri CNN, Jeff Zucker, gagnrýnt Trump og fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins fyrir að átta sig ekki á að orð skipti máli.

„Það ríkir fullkomið og algjört skilningsleysi í Hvíta húsinu á alvarleika stöðugra árása þeirra á fjölmiðla,“ sagði Zucker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert