Tvífari Schwimmers fundinn

Maðurinn, sem þykir nauðalíkur David Schwimmer, er kominn í leitirnar.
Maðurinn, sem þykir nauðalíkur David Schwimmer, er kominn í leitirnar. Ljósmynd/Lögreglan í Blackpool

Lög­regl­unni í Blackpool hefur tekist að bera kennsl á karlmann sem lýst var eftir á dögunum vegna þjófnaðar. Birti lögregla mynd úr eftirlitsmyndavél af manninum sem þykir nauðalíkur leikaranum David Schwimmer, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Ross Geller í Friends-þáttunum.

„Gætum við VERIÐ þakklátari fyrir viðtökurnar við myndinni úr eftirlitsmyndavélinni eftir þjófnaðinn á veitingastaðnum í Blackpool?“ spyr lögreglan í twitterfærslu og ætti vísunin í talsmáta Chandlers Bings, félaga Ross úr Friends, að vekja lukku meðal dyggra aðdáenda.

Í tilkynningu frá lögreglu segir einnig að rannsókn málsins haldi nú áfram. „Bestu þakkir fyrir að deila þessu með Vinum ykkar,“ segir jafnframt í færslunni.

Atvikið hefur vakið mikla athygli og ákvað Schwimmer sjálfur að best væri að sanna sakleysi sitt. Í gær birti hann færslu á Twitter þar sem hann leggur fram sönnunargögn sem sýna að hann hafi verið í New York þegar þjófnaðurinn átti sér stað, á frekar fyndinn hátt. „Lög­reglu­menn, ég sver að þetta var ekki ég,“ sagði meðal annars í færslu Schwimmers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert