Hafnar ákæru um peningaþvætti fyrir N-Kóreu

Tan Wee Beng neitar ákærum FBI og segir ásakanirnar áfall.
Tan Wee Beng neitar ákærum FBI og segir ásakanirnar áfall. AFP

Verðbréfasali í Singapúr, sem bandaríska alríkislögreglan FBI hefur lýst eftir fyrir meinta aðstoð hans við að koma norðurkóreskum stjórnvöldum hjá viðskiptabanni Bandaríkjanna, neitar alfarið öllum ásökunum.

Í samtali við BBC segir verðbréfasalinn, Tan Wee Beng, að hann hafi fyrst frétt af ákærunum gegn sér í fjölmiðlum. „Það hefur enginn haft samband við mig. FBI hefur ekki hringt í mig. Lögreglan í Singapúr hefur ekki hringt í mig,“ sagði Tan.

Geoffrey Barman, saksóknari FBI, sagði í gær Tan vera „flóttamann undan bandarískri réttvísi“. Þá sagði William Sweeney, aðstoðarforstjóri FBI, Tan sekan um að hafa framkvæmt ólöglegar færslur á milljónum dollara fyrir Norður-Kóreu og það væri skýrt brot á þeim efnahagsþvingunum sem Bandaríkin beittu Norður-Kóreu og norðurkóreska aðila.

Er bandaríska fjármálaráðuneytið sagt hafa sett viðskiptabann á Tan og tvö fyrirtæki honum tengd, Wee Tiong (S) Pte Ltd. Og WT Marine Pte Ltd.

Segir ráðuneytið að Tan, sem er farsæll kaupsýslumaður, hafi afgreitt samninga að andvirði milljóna dollara fyrir Norður-Kóreu.

Handtökuskipun var gefin út gegn Tan í lok ágúst á þesu ári, en það var ekki fyrr en í gær sem dómsmálaráðuneytið tilkynnti kæru sína gegn honum. Er hann ákærður fyrir að leggja á ráðin um að brjóta gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna, sem og fyrir bankasvik og peningaþvætti.

„Ég frétti þetta bara í dag á netinu og þetta var algjört áfall,“ sagði Tan við BBC og neitaði ásökununum. „Við erum fyrirtæki í alþjóðaverslun og ekki leppur fyrir peningaþvætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert