Hvetja til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu

Brexit var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016. Stefnt er að …
Brexit var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016. Stefnt er að útgöngu í lok mars 2019. AFP

Yfir 1.500 breskir lögmenn skrifa undir áskorun til forsætisráðherra Bretlands, Theresu May, og þingmanna á breska þinginu að styðja við aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. 

Meðal þeirra sem skrifa undir eru fyrrverandi dómarar og margir af helstu lögmönnum landsins.

Í bréfinu til forsætisráðherrans segir að þingið eigi ekki að vera bundið af niðurstöðu í Brexit-atkvæðagreiðslunni 2016, ekkert frekar en af þjóðaratkvæðagreiðslunni 1975 þegar samþykkt var að ganga í ESB. Segja lögmennirnir grundvallarmun vera á þessum tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum þar sem sú fyrri fór fram eftir að viðræðum við ESB var lokið þannig að kjósendur vissu að hverju þeir voru að ganga ólíkt því sem var í atkvæðagreiðslunni 2016. Þá hafi kjósendur staðið frammi fyrir vali á því þekkta og því óþekkta. 

Fjallað er um bréfið í Guardian í dag

Líkt og fram kom í breskum fjölmiðlum í síðustu viku hefur umsóknum um írsk vegabréf fjölgað gríðarlega frá því Bretar samþykktu Brexit árið 2016. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs bárust tæplega 45 þúsund umsóknir frá Bretum sem eiga rétt á írskum ríkisborgararétti. Það eru álíka margir og sóttu um allt árið 2015.

Umsóknum fjölgaði mjög eftir að alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's sagði að ef Bretar gengju úr ESB án samkomulags myndi það þýða langvinna efnahagslægð, lækkandi fasteignaverð og yfir 5% verðbólgu.

Breskir ríkisborgar sem eiga foreldra eða afa og ömmur sem voru írskir ríkisborgarar fæddir á Írlandi, eiga rétt á því að fá írskt vegabréf. 

Independent var meðal þeirra fjölmiðla sem fjallaði um þetta í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert