Risaskjálfti á Kyrrahafi

Bandaríska jarðskjálftamiðstöðin

Flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út eftir að jarðskjálfti sem mældist 7,5 stig reið yfir Nýju-Kaledóníueyjar í Kyrrahafi. 

Flóðaviðvörunarmiðstöðin á Kyrrahafi, Pacific Tsunami Warning Centre, varar við flóðbylgju og að hún sé líkleg en tilgreinir ekki nánar hvar. Íbúar Nýju-Kaledóníu, en eyjarnar liggja norður af Nýja-Sjálandi, hafa fengið send smáskilaboð um að koma sér strax í neyðarskýli þar sem von sé á að minnsta kosti tveggja eða þriggja metra háum öldum.

Íbúar Nýju-Kaledóníu og Vanuatu, sem er þar skammt frá, segja að þeir hafi ekki fundið fyrir skjálftanum og ekki var búið að virkja flóðbylgjusírenur í Vanuatu, samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar. 

Samkvæmt tilkynningu frá Flóðbylgjumiðstöðinni er hættusvæðið innan eitt þúsund km frá rótum skjálftans en skjálftamiðjan var um 300 km austur af Noumea. Nokkrir eftirskjálftar hafa mælst en ekki hefur verið tilkynnt um tjón af völdum skjálftanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert