Stofnanir lokaðar fram í næstu viku

Skilti fyrir framan ríkisstofnun þar sem fram kemur að hún …
Skilti fyrir framan ríkisstofnun þar sem fram kemur að hún sé lokuð. AFP

Fjölmargar bandarískar ríkisstofnanir verða að öllum líkindum lokaðar fram í næstu viku eftir að þingmönnum mistókst að ná samkomulagi í deilu sem snýst um kröfu Donalds Trump Bandaríkjaforseta um smíði múrs við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.

Bandaríska öldungadeildin ákvað, eftir að hafa komið saman í aðeins nokkrar mínútur eftir jólafrí, að fresta ákvarðanatöku um fjárlögin til næsta miðvikudags.

Stofnanirnar hafa verið lokaðar í sex daga en næsta miðvikudag verða dagarnir orðnir tólf.

Demókratar hafa neitað að leggja 5 milljarða dala fjármagn í landamæramúrinn á sama tíma og forsetinn segist ekki ætla að fjármagna ríkisstofnanir að fullu fyrr en hann fær peninginn. 

Sarah Sanders, talsmaður Hvíta hússins, sakaði demókrata um að „velja fyrir opnum tjöldum að halda ríkisstofnunum lokuðum til að vernda ólöglega innflytjendur frekar en Bandaríkjamenn“.

Hún sagði að Trump „muni ekki undirrita tillögu þar sem öryggi þjóðarinnar er ekki forgangi“.

Forsetinn ætlar sér ekkert að gefa eftir í málinu og hefur gagnrýnt demókrata á Twitter vegna afstöðu sinnar.



Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert