Skera upp herör gegn drónaumferð

AFP

Bannsvæði dróna í nágrenni breskra flugvalla verður stækkað og þeir sem eiga dróna sem eru yfir 250 grömm verða að skrá þá og taka flughæfnipróf á netinu, samkvæmt nýjum reglum sem kynntar hafa verið af breska innanríkisráðuneytinu. Jafnframt verður lögreglu heimilað að sekta þá sem ekki verða við beiðni um að lenda dróna eða geta ekki sýnt fram á að þeir séu með heimild fyrir drónanum allt að 100 pund, 15 þúsund krónur. 

Ástæðan fyrir þessum breytingum er það tjón sem varð vegna drónaumferðar í nágrenni Gatwick-flugvallar fyrir jólin. Þurfti að aflýsa fjölmörgum flugferðum og senda flugvélar á aðra flugvelli á meðan málið var í rannsókn. Par var handtekið vegna málsins en sleppt og hefur ekki enn verið upplýst hverjir voru þar að verki.

Innanríkisráðuneytið mun fljótlega hefja og undirbúa notkun á varnarbúnaði vegna drónaárása á flugvöllum og í fangelsum en bæði Gatwick- og Heathrow-flugvellir hafa tilkynnt um að fjárfest hafi verið fyrir milljónir punda í slíkum búnaði.

AFP

Bannsvæðið í kringum flugvelli verður stækkað úr einum kílómetra í fimm á næstunni og í lok nóvember verður skylt að skrá dróna sem eru 250 grömm til 20 kg að þyngd hjá yfirvöldum.

Drónar sem sáust oftar en 50 sinnum nálægt Gatwick-flugvelli urðu til þess að aflýsa þurfti flugferðum um 120.000 farþega frá 19. til 21. desember. Hermenn voru kallaðir út til að aðstoða lögregluna við að leita að drónunum og þeim sem stjórnuðu þeim. 

Drónum hefur fjölgað mjög víða um heim á síðustu árum en ekki er vitað til þess að þeir hafi valdið alvarlegum flugslysum. Farþegaflugvél í Kanada rakst á dróna í október á síðasta ári en hann olli aðeins lítils háttar skemmdum á væng og vélin lenti heilu og höldnu, að því er sagði í frétt Morgunblaðsins 22. desember.

Enn er lítið vitað um hversu mikil hætta stafar af drónum í grennd við flugvelli, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins. Tilraun sem gerð var í Dayton-háskóla í Bandaríkjunum benti til þess að dróni sem vegur eitt kílógramm gæti valdið miklum skemmdum á farþegaþotu sem er á meira en 380 km hraða á klukkustund. Önnur tilraun sem gerð var í samstarfi við flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum bendir til þess að drónar geti valdið meiri skemmdum á flugvélum en fuglar og rafhlöður flugtækjanna geti valdið eldhættu ef þær festast í bolgrind flugvélar. „Hættan sem stórum flugvélum stafar af drónum er lítil en þó ekki hverfandi,“ hefur fréttavefur BBC eftir Ravi Vaidyanathan, sérfræðingi í dróna- og þjarkatækni við Imperial College í Lundúnum. Hann segir þó að drónar geti farið í hreyfla flugvéla og að tveggja kílógramma dróni geti brotið framrúðu sumra flugvéla.

AFP

Hátæknilausnir og ernir

Kannaðar hafa verið nokkrar leiðir til að vernda flugvélar fyrir drónum. Meðal annars er verið að þróa tækni sem byggist á myndavélum, ratsjám og búnaði sem nemur útvarpstíðni. Hægt væri að beita þessari tækni til að trufla merkjasendingar milli dróna og stjórnanda hans og senda flugtækið aftur á staðinn sem það kom frá. Fyrirtækið Quantom Aviation þróaði slíka tækni til að koma í veg fyrir hugsanlegar árásir dróna á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012, að sögn BBC. Hermt er að fyrirtæki í Kína hafi þróað tæki sem geti grandað dróna með því að trufla merkjasendingar til hans.

Nokkur fyrirtæki hafa þróað byssur sem hægt er að nota til að skjóta neti og fallhlíf á dróna og öryggisyfirvöld hafa tekið slík tæki í notkun í Asíu-, Evrópu- og Norður-Ameríkuríkjum. Fyrirtæki í Bandaríkjunum og Kína hafa einnig þróað leysibyssur sem hægt er að nota til að skjóta dróna niður nokkrum sekúndum eftir að þeir finnast. Boeing hefur þróað tæki sem byggist á háorkugeislun og getur fundið dróna í nokkurra kílómetra fjarlægð og gert hann óvirkan, að sögn BBC.

AFP

Slík hátækni er þó ekki eina mögulega svarið við hættunni sem stafar af drónaþrjótum. Her Frakklands hefur reynt að þjálfa erni í að grípa dróna með klónum í von um að hægt verði að nota þá til að verja mikilvægar byggingar. Sú aðferð var reynd í Hollandi en hætt hefur verið við að beita henni þar vegna þess að hún þótti of dýr og ernirnir létu illa að stjórn, að sögn AFP, samkvæmt frétt Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu 22. desember.

Á aðfangadag var haft eftir upplýsingafulltrúa Isavia í Morgunblaðinu að flugumferðarstjórar á Keflavíkurflugvelli eru með viðbragðsáætlun til staðar ef sést til dróna nálægt flugvellinum eins og gerðist á Gatwick-flugvellinum.

„Ef það verður vart við dróna á flugi nálægt flugvellinum er byrjað á því að láta flugstjóra um borð í þeim vélum sem eru á leiðinni til Keflavíkur vita um að það hafi sést til dróna í nálægð við flugvöllinn. Síðan er haft samband við lögreglu og það tilkynnt,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

„Síðan er farið í mat hér innanhús hjá okkur með yfirmönnum í flugumferðastjórninni á þeim viðbrögðum sem þarf að grípa til út frá öryggissjónarmiðum. Hvort það þarf að beina flugvélum eitthvað annað eða mögulega að grípa til aðgerða eins og gert var í Gatwick, að loka brautum. Það er bara metið út frá atburðum og öryggissjónarmiðum,“ segir Guðjón og bætir við að Samgöngustofa haldi utan um allar þær reglur sem snúa að drónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert