Árásin í Christchurch í hnotskurn

Skjáskot úr beinni útsendingu árásarmannsins sem kynnti sig sem Ástralann ...
Skjáskot úr beinni útsendingu árásarmannsins sem kynnti sig sem Ástralann Brenton Tarrant. AFP

Tvær mannskæðar árásir voru gerðar í moskum í hinni friðsælu borg Christchurch á Nýja-Sjálandi. 49 eru látnir og álíka margir særðust, þar af 20 alvarlega. Byssum var beitt í árásinni og aðra þeirra sendi árásarmaðurinn út í beinni útsendingu á Facebook. Í moskunum var fólk komið saman til bæna. Talið er að börn séu meðal látinna. 

Enn er ýmislegt á huldu varðandi árásirnar en hér að neðan má lesa um það sem vitað er nú þegar:

Hvað gerðist?

 Við kvöldbænir í dag, á föstudegi sem er heilagur dagur í trúarlífi múslima, hóf byssumaður skothríð í Masjid al-Noor moskunni í miðborg Christchurch. 41 lést í árásinni. Sjö til viðbótar létust í annarri mosku í úthverfi borgarinnar, Linwood. Þrjú fórnarlambanna voru drepin fyrir utan bygginguna. Enn er ekki ljóst hvar eitt fórnarlamb til viðbótar lést. 

Skjáskot af byssunum sem notaðar voru í árásinni. Á þeim ...
Skjáskot af byssunum sem notaðar voru í árásinni. Á þeim er að finna nöfn ýmissa öfgamanna sem hafa gert árásir á múslima. AFP

Sjónarvottar segja að sum fórnarlömbin hafi verið skotin af stuttu færi. Einn sjónarvottur segist hafa séð mann skotinn beint í höfuðið. Hann segir byssumanninn hafa skotið í nokkrum, stuttum lotum og að fólk hefði byrjað að hlaupa út, þakið blóði.

Annar sjónarvottur segist hafa séð eiginkonu sína liggja látna fyrir utan moskuna er hann flúði þaðan. Eitt vitnið segir að börn séu meðal hinna látnu.

Hvernig voru viðbrögð lögreglu?

Lögreglan lokaði fyrir umferð til og frá borginni og sendi vopnaðar sveitir á nokkra staði. Í aðgerðum hennar fannst sprengjubúnaður á ökutæki og var hann gerður óvirkur.

Þrír karlmenn og ein kona var handtekin. Einn karlmannanna hefur verið ákærður fyrir morð. Hinir tveir karlarnir eru enn í haldi en ekki hefur verið upplýst hvert hlutverk þeirra var í árásunum en í frétt Guardian segir að þeir hafi verið handteknir skammt frá vettvangi og verið vopnaðir.

Lögreglan ráðlagði múslimum að halda sig frá öllum moskum á Nýja-Sjálandi. Í landinu búa tæplega fimm milljónir manna og fjöldaskotárásir eru fágætar.

Borgaryfirvöld í Christchurch opnuðu hjálparsíma, m.a. fyrir foreldra barna sem voru við loftslagsmótmæli skammt frá moskunni í miðbænum.

Skjáskot úr myndbandinu sem árásarmaðurinn tók upp og sendi út ...
Skjáskot úr myndbandinu sem árásarmaðurinn tók upp og sendi út í beinni af árás sinni í moskunni. AFP

Lögreglan rýmdi líka íbúðarhús í nágrenni byggingar í borginni Dunedin sem er í um 350 kílómetra fjarlægð frá Christchurch. Var talið að byggingin tengdist árásunum.

Hver hafa viðbrögð ráðamanna verið?

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, segir að um einn hroðalegasta viðburð í sögu landsins að ræða en um mannskæðustu skotárás í landinu frá upphafi er að ræða. Um árásarmanninn sagði hún: „Þú valdir okkur en við höfnum þér og fordæmum þig algjörlega.“ Ardern sagði að í hópi fórnarlambanna væru flóttamenn. „Þeir eru við,“ sagði hún um þá.

Hver eru fórnarlömbin?

 Enn hefur listi með nöfnum allra fórnarlambanna ekki verið gerður opinber en utanríkisráðuneytið hefur staðfest þjóðerni eins þeirra, jórdansks karlmanns. Gestir moskunnar á þeim tíma sem árásin var gerð voru af ýmsum þjóðernum, m.a. voru þar a.m.k. sex Indónesar. Indónesíska utanríkisráðuneytið hefur staðfest að þrír þeirra hafi komist lífs af en ekki er vitað um afdrif hinna þriggja.

Á meðal þeirra sem særðust í árásinni var Sádiarabískur karlmaður, tveir Malasar, tveir Tyrkir og að minnsta kosti fimm Jórdanar. Ung börn særðust í árásinni.

Að minnsta kosti 48 særðust í árásunum.
Að minnsta kosti 48 særðust í árásunum. AFP

Indversk stjórnvöld segja að níu indverskra ríkisborgara sé saknað. 

Fréttir hafa einnig borist af krikketliði frá Bangladess sem kom að Mashjid al-Noor moskunni skömmu eftir að blóðbaðið var yfirstaðið. Þjálfari liðsins segist hafa séð blóðugt fólk koma út úr moskunni er liðið kom þar að í rútu. 

Hvað er vitað um árásarmanninn?

Yfirvöld hafa enn ekki staðfest nafn byssumannsins en forsætisráðherra Ástralíu segir hann vera ástralskan ríkisborgara og sagði að hann væri öfgamaður, hægrisinnaður, ofbeldisfullur hryðjuverkamaður“.

Fjölmiðlar, m.a. þeir nýsjálensku, segja árásarmanninn heita Brenton Tarrant og vera 28 ára. Hann birti „stefnuyfirlýsingu“ í anda Anders Berhring Breivik á Twitter-síðu sinni, festi myndavél á höfuð sér og sendi árásina út í beinni á Facebook.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, flutti sjónvarpsávarp eftir árásirnar.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, flutti sjónvarpsávarp eftir árásirnar. AFP

Í yfirlýsingunni, sem telur 74 blaðsíður, lýsir árásarmaðurinn sér sem hvítum karlmanni úr verkamannafjölskyldu sem hafi viljað ráðast gegn múslimum. Hann segist hafa ferðast í nokkur ár, m.a. heimsótt Frakkland, Spán og Portúgal. Ástralskir fjölmiðlar segja hann frá bænum Grafton norður af Sydney. Þar hafi hann m.a. starfað sem einkaþjálfari.

Margar myndir voru birtar á síðu á samfélagsmiðli af hálfsjálfvirkum vopnum sem búið var að skrifa ýmis nöfn á, m.a. þeirra sem hafa ráðist gegn múslimum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Dunlop Enasave Ec300
4 ný og ónotuð Dunlop Enasave Ec300 sumardekk til sölu. 215/50R17 Verð 40 þús...
Málningar- og viðhaldsvinna
Getum bætt við okkur inni- og útiverkefnum. Vönduð vinnubrögð og góð umgengni. T...
Falleg þriggja herbergja íbúð til leigu í Hrísateig.
Falleg þriggja herbergja íbúð í Hrísateig. Um er að ræða hjónaherbergi, lítilð b...
Bensínhjólbörur
Eigum til bensínhjólbörur með 7.5hp Briggs & Stratton, Drif á öllum, 4 gírar á...