„Bíddu og sjáðu hvað við gerum!“

Roshan Mahesan, prestur hvítasunnusafnaðar á Sri Lanka, er staddur í ...
Roshan Mahesan, prestur hvítasunnusafnaðar á Sri Lanka, er staddur í Ósló sem gestaprestur um páskana. Hefði hann verið á staðnum í kirkju sinni í morgun þegar maður með fullan bakpoka af sprengiefni spurði eftir honum væri hann hugsanlega látinn. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi Martin Roalsø fréttamanns NRK. Ljósmynd/NRK/Martin Roalsø

Roshan Mahesan, prestur hvítasunnukirkju á Sri Lanka, er staddur í kirkju hvítasunnusafnaðarins í Grorud-dalnum í Ósló þar sem hann mun leiða guðsþjónustu um páskana. Honum bárust þau voveiflegu tíðindi í dag að maður með bakpoka hefði komið í kirkju Mahesan og spurt um hann. Öryggisverðir vísuðu manninum út rétt áður en hann sprengdi sig í loft upp.

Það er norska ríkisútvarpið NRK sem segir frá heimsókn Mahesan til Óslóar og ræðir við prestinn sem segir frá því að kirkjunni hafi borist hótun um árás á mánudaginn. Hann segir að þá hafi óþekktur aðili hringt í meðhjálpara kirkjunnar og sagt við hann „Bíddu og sjáðu hvað við gerum!“

„Við tókum þessu ekkert sérstaklega alvarlega,“ segir Mahesan við NRK, „fólk er alltaf að senda okkur hótanir gegnum Facebook-síðuna okkar.“

Neitaði að leggja frá sér bakpokann

Kirkja Mahesan er í austurhluta Sri Lanka og hann og fjölskylda hans búa í kirkjunni. Mahesan sagði NRK frá því hvað eiginkona hans tjáði honum þegar hún hringdi í hann í morgun: „Maður kom í kirkjuna í morgun og krafðist þess að fá að ræða við mig. Hann var með bakpoka og háttalag hans var mjög sérstakt. Hann var beðinn um að leggja frá sér bakpokann en það vildi hann ekki gera. Þá var hann beðinn um að fara,“ segist Mahesan frá.

Hann segir manninn þá hafa gengið út fyrir og sprengt þar sprengju sem falin var í bakpoka hans. Maðurinn var þó nógu nálægt kirkjunni til að 27 sóknarbörn létu lífið og rúmlega 60 særðust. „Ég hugsa ekki þá hugsun til enda hefði hann komist inn í kirkjuna og sprengt sig í loft upp þar,“ sagði Mahesan. „Nú ríður á að ég komi mér heim til Sri Lanka, helst strax á morgun. Við þurfum að sinna útförunum,“ sagði klerkurinn Mahesan við NRK í dag, maður sem hugsanlega væri látinn hefði hann ekki verið staddur í Ósló sem gestaprestur í páskaguðsþjónustu.

Fréttavefurinn vill þakka Martin Roalsø, fréttamanni NRK, fyrir veitta aðstoð og mynd við vinnslu fréttarinnar.

Viðtal Roalsø við Mahesan

Frétt NRK um að nú hafi 13 manns verið handteknir á Sri Lanka

Frétt danska ríkisútvarpsins DR um viðbrögð danska forsætisráðherrans eftir að þrír Danir voru staðfestir látnir eftir árásina á Sri Lanka

mbl.is